Handtekinn fyrir að bjóða góðan daginn

Manninum var sleppt þegar misskilningurinn kom í ljós.
Manninum var sleppt þegar misskilningurinn kom í ljós. AFP

Ísraelska lögreglan handtók Palestínumann í síðustu viku eftir að facebookfærsla þar sem hann skrifaði „góðan daginn“ á arabísku var sjálfkrafa þýdd sem „ráðist á þá“ á hebresku.

Lögreglan staðfesti í samtali við ísraelska fjölmiðla að byggingarverkamaður hefði verið færður í varðhald grunaður um áróður, en honum hefði verið sleppt skömmu síðar. BBC greinir frá.

Færslan sem maðurinn birti á síðu sinni innihélt mynd af verkamanni við hliðina á jarðýtu á Vesturbakkanum, en slík tæki hafa verið notuð til árása, að því er fram kemur í ísraelskum fréttamiðlum. Þar kemur jafnframt fram að mjög lítill munur sé á setningunum „góðan daginn“ og „særið þá“ eða „ráðist á þá“ þegar þær eru skrifaðar. Svo lítill munur að sjálfvirk þýðing á Facebook þýddi orð mannsins á kolrangan hátt, með fyrrgreindum afleiðingum.

Facebookfærslan var ekki borin undir neinn sem kunni arabísku og því einungis stuðst við þýðingu Facebook á færslunni, sem nú hefur verið eytt.

Facebook virðist ekki alltaf vera með á nótunum í þýðingum sínum, en á síðasta ári vakti það töluverða athygli þegar Google translate þýddi Rússland sem Mordor, sem margir kannast eflaust við úr Hringadróttinssögu. Þá var orðið Rússar þýtt sem leigjendur.

Talsmenn Google blönduðu sér í umræðuna þá og sögðu að þýðingarnar virkuðu þannig að leitað væri að mynstri í hundruðum milljóna skjala, en þýðing væri alltaf erfið því merking orða væri misjöfn eftir því í hvaða samhengi þau væru notuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert