Heyrir röddina í mömmu í fyrsta skipti

Sviprigði Charly eru alveg kostuleg.
Sviprigði Charly eru alveg kostuleg. Mynd/Skjáskot af Facebook

Myndband af augnablikinu þegar þriggja mánaða gömul stúlka heyrir rödd móður sinnar í fyrsta skipti hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla síðustu vikuna. Móðir hennar segir að tengingin sem mæðgurnar hafi náð á þessu augnabliki hafi verið alveg ótrúleg.

Charly Keane fæddist í ágúst síðastliðnum og fljótlega kom í ljós að hún heyrði mjög takmarkað. Í fyrstu var talið að vökvi væri í eyrum hennar sem orsakaði heyrnarskerðinguna en við nánari athugun kom í ljós að hún var alveg heyrnarlaus og myndi líklega ekki lagast með tímanum. The Independent greinir frá.

Foreldrar Charly, Christy og Daniel, útveguðu henni þá heyrnartæki og ákváðu að taka viðbrögð hennar upp á myndband þegar fyrst var kveikt á tækjunum.

Myndbandið birti Christy svo á Facebook og hefur það farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Enda ekki skrýtið, þar sem viðbrögð litlu stúlkunnar eru alveg dásamleg og eflaust margir sem vöknar um augun.

Christy sagði frá upplifuninni þegar dóttir hennar heyrði rödd hennar í fyrsta skipti í samtali við vefmiðilinn Good Houskeeping.

„Ég hef aldrei í lífi mínu séð þetta andlit áður. Ég er móðir hennar og sé það í augum hennar þegar hún er sorgmædd, líður illa eða er í uppnámi, og þessi tenging, þetta augnablik þegar augu okkar mættust og hún heyrði rödd mína í fyrsta skipti, þá sýndi hún alvöru tilfinningar.“

Christy sagði allan þann sársauka sem þau hefðu upplifað vegna þess að hún heyrði ekki í þeim hafa horfið eins og dögg fyrir sólu.

„Á hverjum degi, þegar við setjum heyrnartækin á hana, og sjáum hana brosa þá upplifum við kraftaverk.“

Charly mun nú fá þjálfun hjá talþjálfara svo að hún læri að tala á svipuðum aldri og jafnaldrar hennar. Foreldrar hennar eru þó líka farnir að skoða möguleika á kuðungsígræðslu sem geri henni kleift að heyra án heyrnartækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert