Tékkneski-Trump næsti forsætisráðherra

Andrej Babis formaður ANO-flokksins og Monika kona hans eftir að …
Andrej Babis formaður ANO-flokksins og Monika kona hans eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir. AFP

Milljarðamæringurinn Andrej Babis og flokkur hans sigruðu í tékknesku þingkosningunum í gær. Babis, sem er annar ríkasti maður Tékklands og hefur gjarnan verið kallaður hinn tékkneski Trump, er formaður miðjuflokksins ANO (Já) sem fékk tæp 30% atkvæða í kosningunum, sem er tæplega þrisvar sinnum meira en næsti keppinautur.

Hægri miðjuflokkurinn Borgarlegi demókrataflokkurinn og Píratar voru í öðru og þriðja sæti með rúm 10% atkvæða hvor.

Tékknesku Píratarnir munu þreyja frumraun sína í þinginu á komandi kjörtímabili, en þeir fengu 22 þingsæti að sögn AFP-fréttastofunnar.

BBC segir útlit fyrir að Babis verði næsti forsætisráðherra Tékklands að loknum stjórnarmyndunarviðræðum. Hefur Reuters-fréttastofan eftir Babis að þó að hann hafi boðið „öllum“ að samningaborðinu vilji hann hvorki samstarf við öfgahægriflokka né kommúnistaflokkinn.

Babis hefur verið sakaður af andstæðingum sínum um popúlisma, en hann hefur talað gegn „kerfinu“ og hinni pólitísku „elítu“ í landinu. Þá hefur hann að hluta tekið undir málflutning þjóðernissinna gegn Evrópusambandinu og þá einkum hvað varðar stefnu ESB í málefnum hælisleitenda. Þá vill hann ekki taka upp evruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert