Býðst til að fara til Norður-Kóreu

Jimmy Carter var forseti Bandaríkjanna frá 1977 til 1981.
Jimmy Carter var forseti Bandaríkjanna frá 1977 til 1981. AFP

„Mér finnst fjölmiðlar hafa verið erfiðari við Trump en alla aðra forseta sem ég þekki til,“ segir Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í viðtali við New York Times. „Mér virðist sem þeim finnist í lagi að halda því fram að hann sé vitfirrtur og hvað sem er annað, án þess að hika,“ segir hann.

Í viðtalinu býðst Carter, sem er 93 ára gamall og gegndi forsetaembættinu á árunum 1977-81, til að leggja Donald Trump lið í samskiptum sínum við Norður-Kóreumenn. Hann býðst til að fara sjálfur til Norður-Kóreu, líkt og hann gerði í júní 1994. Þá fór hann í óþökk Bills Clintons forseta og kom til baka með samning við Kim Il-sung, afa núverandi leiðtoga Norður-Kóreu, í farteskinu.

„Ég myndi fara,“ hefur blaðið eftir Carter, sem hafði betur í baráttu sinni við krabbamein í heila fyrir tveimur árum. „Ég er líka smeykur við ástandið,“ segir hann við blaðamanninn. „Ég veit ekki hvað mun gerast, vegna þess að þeir vilja halda völdum,“ segir hann um stjórnvöld í Norður-Kóreu. „Við ofmetum stórlega áhrif Kínverja á Norður-Kóreumenn, sérstaklega á Kim Jong-un. Hann hefur aldrei, mér vitanlega, farið til Kína. Á milli þeirra er ekkert samband. Kim Jon-il átti hins vegar í nánu sambandi við Kínverja,“ bætir hann við.

Í viðtalinu segir hann að erfitt sé að lesa í Kim Jong-un og þess vegna sé hann áhyggjufyllri nú en hann var þegar pabbi hans stýrði landinu. Hann óttast að Kim Jong-un gæti gripið til forvirkra aðgerða ef hann teldi að Trump ætlaði að ráðast gegn sér. „Ég held að hann búi yfir þróuðum búnaði þegar kemur að kjarnorkuvopnum, sem gætu tortímt Kóreuskaga, Japan, hluta af yfirráðasvæðum okkar á Kyrrahafinu og jafnvel á meginlandinu,“ segir Carter.

Carter segist hafa rætt við þjóðaröryggisráðgjafa Trump, H.R. McMaster, og tjáð honum hug sinn, en að Trump hafi enn sem komið er ekkert viljað með hann hafa. „Ég sagði honum að ég væri reiðubúinn, ef hann þyrfti á mér að halda,“ segir Carter.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur bandamann í Jimmy Carter.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur bandamann í Jimmy Carter. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert