Lífstíðarfangelsi fyrir að drepa lögreglumann

Wolfgang P mætir með lögreglu í dómssal. Hann var dæmdur …
Wolfgang P mætir með lögreglu í dómssal. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir drápið á lögreglumanninum. AFP

Dómstóll í Bæjaralandi hefur dæmt mann til lífstíðarfangelsisvistar fyrir að drepa lögreglumann í áhlaupi lögreglu á heimili hans á síðasta ári.

Maðurinn er nefndur Wofgang P, en þýsk yfirvöld gefa ekki upp ættarnöfn sakborninga í dómsmálum að því er BBC greinir frá. Hann tilheyrir samtökum sem nefnast „Reichsbürger“ og sem hafnar tilvist þýska ríkisins.

Þrír sérsveitarmenn særðust í áhlaupinu og einn lést þegar Wolfgang skaut á þá í gegnum dyr á heimili sínu í bænum Georgensgmünd í nágrenni Nürnberg. Lögregla hafði farið á staðinn til að gera upptækt vopnabúr mannsins sem átti um 30 byssur

The Reichsbürger samtökin samþykkja ekki stjórn þýska ríkisins, sem stofnað var að lokinni heimstyrjöldinni síðari, heldur trúa félagar á áframhaldandi tilvist Þýska heimsveldisins, eða Reich, sem rekja má til ársins 1937.

Þýska öryggislögreglan telur a.m.k. 12.600 félaga vera í samtökunum og eru 3.000 þeirra hið minnsta taldir búa í Bæjaralandi.

Í kjölfar skotárásarinnar endurmátu þýsk yfirvöld hættuna sem stafar af samtökunum og gáfu út að sumir liðsmannanna gætu verið hættulegir nýnasistar. Fram að þeim tíma höfðu félagar aðallega vakið athygli yfirvalda fyrir að neita að greiða skatta og fyrir eign á skotvopnum.

Þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung segir að póstkassi Wolfgangs hafi verið áritaður með orðunum „Ríkisstjórnarsvæði Wolfgangs“ og „Hér eru mín orð lög!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert