Súrnun hefur áhrif á allt lífríki hafsins

Súrnun sjávar hefur áhrif á sjávarlífverur í öllum hópum, en …
Súrnun sjávar hefur áhrif á sjávarlífverur í öllum hópum, en þó í mismiklu mæli. AFP

Aukin súrnun sjávar af völdum útblásturs koltvísirings sem fylgir lífsháttum samtímans hefur áhrif á allt lífríki sjávar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem 250 vísindamenn unnu yfir átta ára tímabil. Segir í skýrslunni að yngstu sjávarlífverurnar verði fyrir hvað mestum skaða vegna þessa og felur þetta m.a. í sér að þeim þorski sem nær fullum þroska mun fækka um fjórðung.

Rannsóknin var unnin af BIOACID-verkefninu (Biological Impacts of Ocean Acidification) sem er stjórnað frá Þýskalandi og verða niðurstöður hennar kynntar fyrir samningamönnum um loftslagsmál á árlegum fundi þeirra í Bonn í Þýskalandi í nóvember.

Segja vísindamennirnir að einhverjar lífverur kunni að hagnast á þeim efnafræðilegu breytingum sem verða, en að jafnvel þær gætu orðið fyrir neikvæðum áhrifum vegna breytinga á fæðukeðjunni.

Þá munu breytingarnar sem fylgja súrnun sjávar verða enn verri fyrir tilstilli loftlagsbreytinga, mengunar, ofveiði, rofs strandlínu og gróðuráburðar. 

Súrnun sjávar er tilkomin vegna þessa að koltvísiringur úr jarðefnaeldsneyti leysist upp í hafinu, sem framleiðir svo kolsýru sem lækkar pH gildi vatnsins.

Frá því við upphaf iðnbyltingarinnar hefur sýrustig sjávar fallið úr pH 8,2 í pH 8,1 sem jafngildir 26% aukningu í súrnun.

„Súrnun hefur áhrif á sjávarlífverur í öllum hópum, þó í mismiklum mæli,“ segir prófessor Ulf Riebesell frá GEOMAR Helmholtz-miðstöðinni í sjávarlífsrannsóknum í  Kiel einn höfunda skýrslunnar.

„Kóralar á hlýrri vatnasvæðum eru almennt viðkvæmari en kóralar á köldum svæðum. Þá er skelfiskur og sniglar viðkvæmari en krabbadýr.“ Þá verði yngri og óþroskaðar lífverur fyrir meiri áhrifum en þær sem eru fullþroska.  

„En jafnvel þó að lífvera verði ekki fyrir beinum áhrifum að súrnuninni, þá kann hún að verða fyrir óbeinum áhrifum í gegnum breytingar á lífríki sínu eða fæðukeðju,“ segir Riebesell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert