Ungbörn deyja úr vannæringu

Sahar Dofdaa dó úr vannæringu í gær.
Sahar Dofdaa dó úr vannæringu í gær. AFP

Áframhaldandi þjáningar almennra borgara sem búa við umsátursástand í Sýrlandi sjást vel á myndum af vannærðu barni. Ungbarnið lést síðar úr hungri í úthverfi Damascus, þar sem stjórnarandstæðingar ráða ríkjum.

AFP-fréttastofan birti myndirnar í dag en þar sést ungbarnið Sahar Dofdaa. Hún var ekki nema mánaðargömul þegar myndirnar voru teknar og vó ekki nema tvö kíló. Augun í henni voru sokkin og rifbeinin sáust greinilega á grindhoruðum líkamanum.

Barnið hlaut meðhöndlun hjá lækni í bænum Hamouria vegna vannæringar en lést í gær.

Dofdaa komst of seint undir læknishendur.
Dofdaa komst of seint undir læknishendur. AFP

„Við höfum litlar birgðir og ef ástandið verður svipað áfram þá munu fleiri krakkar deyja,“ sagði opinber starfsmaður sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Læknar og hjálparstarfsmenn segja vannæringu það algenga að fjöldi slíkra mála komi inn á spítala og heilsugæslu daglega. Nýbakaðar mæður geta ekki gefið börnum sínum brjóst vegna vannæringar sem veldur því að börnin hljóta ekki næringu.

Nánari umfjöllun Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert