Vilja ekki aðra þjóðaratkvæðagreiðslu

AFP

Meirihluti Breta, eða 53%, villl ekki að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldið í Bretlandi um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu eins og sumir þarlendir stjórnmálamenn hafa talað fyrir. Rúmur þriðjungur, eða 35%, er því hins vegar hlynntur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem breska dagblaðið Guardian fjallar um í dag. Samkvæmt henni eru mun fleiri Bretar ósáttir við það hvernig Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur haldið á málum varðandi útgönguna en þeir sem eru sáttir eða 49% gegn 27%. Þá telja aðeins 20% að viðræður við Evrópusambandið um útgönguna eigi eftir að skila ásættanlegum útgöngusamningi.

Hins vegar telja aðeins 23% að rétt sé að hætta við útgönguna úr Evrópusambandinu samanborið við 62% sem eru því ósammála. Af þeim síðarnefndu eru 37% þeirrar skoðunar að Bretland ætti að yfirgefa sambandið án samnings við sambandið og 25% að Bretar ættu að vera áfram hluti af innri markaði þess þar til hagstæður samningur næðist.

Ennfremur segir að 40% vilji að Bretar verði áfram innan innri markaðarins eftir að úr Evrópusambandinu er komið en 37% séu andvígir því. Þá kemur fram í fréttinni að fátt bendi til þess að Bretar hafi skipt um skoðun í afstöðu sinni til útgöngunnar frá þjóðaratkvæðagreiðslunni sumarið 2016 þegar meirihluti breskra kjósenda samþykkti að segja skilið við sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert