Banna notkun á rafrettum innandyra

Notkun á rafrettum á almennum svæðum innandyra verður bönnuð í …
Notkun á rafrettum á almennum svæðum innandyra verður bönnuð í New York frá og með lok næsta mánaðar.

Bann gegn því að nota rafrettur, eða að veipa (e. vaping), gengur í gildi í New York eftir 30 daga. Rafrettur munu þá falla undir sömu lög og sígarettur, það er að bannað verður að reykja á almennum svæðum innandyra, svo sem á veitingastöðum, börum og á skrifstofum.

New York var meðal fyrstu ríkja í Bandaríkjunum til að banna reykingar á almennum svæðum innandyra árið 2003.

BBC greinir frá því að notkun rafretta hafi aukist til muna eftir að reglur um notkun sígaretta hafi verið hertar. Þessar nýju reglur munu þó hafa takmörkuð áhrif þar sem bann gegn rafrettum hefur verið í gildi á nokkrum svæðum í New York ríki, þar á meðal í borginni, frá 2013.

The New York Times greinir frá því að 70% sveitastjórna innan ríkisins hafa nú þegar bannað notkun rafretta á almennum svæðum innandyra.

Ástæður bannsins má rekja til þess að rafrettur hafa verið markaðssettar sem heilsusamlegri valkostur en sígarettur. Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, segir að raunin sé sú að rafrettur, líkt og sígarettur, séu hættu­legar eða skaðlegar heilsu fólks til langs tíma. „Þessar aðgerðir loka annarri hættulegri glufu í lögunum og leiða til sterkari og heilbrigðari New York-borgar fyrir ökkur öll,“ segir Cuomo.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AFP

Áhrif rafretta á heilsufar fólks eru ekki kunn að fullu og greinir vísindamenn á um áhrifin. Ekki hefur gefist kostur á að rannsaka langtímaáhrif rafretta, meðal annars vegna þess hversu nýtt fyrirbæri þær eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert