Er Jihad í lagi en ekki Nutella?

Toulouse.
Toulouse. Wikipedia/Balmario

Ákæruvaldið í Frakklandi stendur nú frammi fyrir þeirri spurningu hvort það sé ásættanlegt að nefna barn Jihad, þegar fjöldi fólks hefur látið lífið í hryðjuverkaárásum sem framdar hafa verið undir borða „heilags stríðs“.

Umrætt mál kann á endanum að rata fyrir fjölskyldudómstól en það komst í kastljósið eftir að yfirvöldum barst tilkynning um að drengur í Toulouse hefði á dögunum fengið hið umdeilda nafn.

Þess ber að geta að jihad, sem er arabískt orð, þýðir ekki beinlínis „heilagt stríð“ heldur „barátta“ en orðið jíhadisti hefur verið notað um íslamska bardagamenn, t.d. þá sem hafa framið hryðjuverk í nafni Ríkis íslams.

Nafnaval foreldra er ekki takmarkað í frönskum lögum, svo framarlega sem nafnið þykir ekki ganga gegn hagsmunum barnsins. Þá má það ekki stofna góðum orðstír fjölskyldunnar í hættu.

Drengurinn sem hér um ræðir fékk nafnið Jihad í ágúst sl. en hann er ekki sá eini í Frakklandi sem ber það. Hingað til hafa ekki verið gerðar athugasemdir við nafngiftina.

Árið 2013 var móðir í borginni Nimes hins vegar dæmd í mánaðarlangt skilorðsbundið fangelsi og sektuð um 250 þúsund krónur fyrir að senda þriggja ára son sinn Jihad í skóla í stuttermabol sem á stóð Ég er sprengja og Jihad; fæddur 11. september.

Þá kom franskur dómstóll í veg fyrir það árið 2015 að foreldrar nefndu dóttur sína Nutella, eftir heslihnetusúkkulaðismjörinu, á þeirri forsendu að barnið yrði að athlægi. Ákvað dómarinn að stúlkan skyldi þess í stað heita Ella.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert