Grunaðir morðingjar leiddir um flugstöð

Doan Thi Huong (til hægri) og Siti Aishah leiddar um …
Doan Thi Huong (til hægri) og Siti Aishah leiddar um flugvöllinn í Kuala Lumpur. AFP

Farið var með konurnar tvær sem eru ákærðar fyrir að hafa myrt hálfbróður Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, á flugstöðina í Malasíu þar sem eitrað var fyrir hann.

Þeirra var vandlega gætt af lögreglumönnum. Konurnar voru leiddar um flugstöðina en einnig var ekið með þær í hjólastólum og önnur þeirra brast í grát.

Þær Siti Aishyah frá Indónesíu og hin víetnamska Doan Thi Huong voru handjárnaðar og í skotheldum vestum þegar farið var með þær á alþjóðaflugvöllinn í Kuala Lumpur. Um var að ræða hluta af réttarhöldum yfir þeim og með í för var dómari, auk verjenda og saksóknara.  

Hæstaréttardómarinn Azmi Ariffin (í miðjunni) ásamt verjendum kvennanna.
Hæstaréttardómarinn Azmi Ariffin (í miðjunni) ásamt verjendum kvennanna. AFP

Um tvö hundruð lögreglumenn, margir vopnaðir rifflum og með grímur fyrir andlitinu, stóðu vörð.

Kim Jong-nam var að bíða eftir eftir að fara um borð í flugvél í febrúar þegar eitrað var fyrir hann með taugagasi og vakti morðið mikla athygli um víða veröld.

Sérsveit lögreglunnar stendur vörð.
Sérsveit lögreglunnar stendur vörð. AFP

Heimsóknin á flugstöðina átti að veita þeim sem tengjast réttarhöldunum betri innsýn í það sem gerðist þennan dag.

Mikill fjöldi blaðamanna elti konurnar um allan flugvöllinn en vopnaðir lögreglumenn komu í veg fyrir að þeir kæmust of nærri.

Meðal annars var komið við í brottfararsalnum þar sem ráðist var á Kim, á læknastofunni  þangað sem farið var með hann eftir árásina og á salerni þar sem talið er að konurnar sem eru grunaðar um verknaðinn hafi farið eftir árásina.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert