Miskunnarlaus og útsmoginn kynlífsfíkill

Konstantin Khabensky fer með hlutverk Trotskís í þáttunum
Konstantin Khabensky fer með hlutverk Trotskís í þáttunum Skjáskot/YouTube

Rússneski byltingarsinninn Leon Trotskí fær allhressilega yfirhalningu sem hetja í rokkarastíl í nýrri rússneskri sjónvarpsþáttaröð sem beinir kastljósinu að ævintýralegum hetjudáðum hans. Þar er dreginn upp mynd af Trotskí sem miskunnarlausum einstakling sem lifði mjög fjörugu kynlífi.

Það er rússneska ríkissjónvarpið, Rás 1, sem framleiðir þáttaröðina til að minnast þess að hundrað ár eru liðin frá rússnesku byltingunni – með því að beina kastljósinu að einni umdeildustu byltingarhetjunni.

„Þetta er fyrsta sjónvarpsþáttaröðin sem er tileinkuð Trotskí í sögu Rússlands,“ segir sjónvarpsstjórinn Konstantin Ernst, við mögulega kaupendur á borð við Netflix á MIPCOM kaupstefnunni í Cannes í Frakklandi.

Leit út eins og rokkhetja

„Ólíkt Lenín, þá leit Trotskí út eins og rokkhetja. Hann braust út úr fangelsi, svo var bylting, ást, útlegð og morð.“



Ernst grínast og líkir Trotskí, sem átti í ástarsambandi við mexíkósku listakonuna Fridu Kahlo, við kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein sem nú nýtur lítilla vinsælda í kvikmyndabransanum.

Trotskí var að sögn Ernst „orkumikill, skapandi og kynferðislega virkur – þessi síðasti hluti, hann er, eins og þið vitið, ekki svo vinsæll í kvikmyndaiðnaðinum sl. tvær vikur,“ segir hann.

Trotskí átti stóran þátt í rússnesku byltingunni 1917, en var síðar fordæmdur sem „óvinur fólksins“ vegna andstöðu sinnar við Jósef Stalín. Hann var mikill mælskumaður og fræðimaður sem var neyddur í útlegð 1929, þar sem hann varð síðar eitt af átrúnaðargoðum vinstri manna á Vesturlöndum.

Hann var síðan myrtur af sovésku leyniþjónustunni í Mexíkó árið 1940 er hann var stunginn til bana með ísexi.

Lék mikilvægt og blóði drifið hlutverk

Sjónvarpsserían heitir einfaldlega Trotskí og er um að ræða átta þátta röð sem fer í loftið í nóvember. Hlutverk Trotskí er leikið af hinum 45 ára gamla Konstantin Khabensky, sem er einn af vinsælustu leikurum Rússa og brá honum raunar einnig fyrir í kvikmynd Thomas Alfredson „Tinker Tailor Soldier Spy“.

Rússnesku leikararnir Olga Sutulov og Konstantin Khabensky í Cannes við …
Rússnesku leikararnir Olga Sutulov og Konstantin Khabensky í Cannes við kynningu sjónvarpsþáttanna. AFP

„Það er erfitt að vera hlutlaus hundrað árum síðar, en við reyndum að byggja þáttaröðina á raunverulegum atburðum,“ segir Alexander Tsekalo einn framleiðanda þáttanna. „Trotskí lék mikilvægt og blóði drifið hlutverk í rússnesku byltingunni.“

Í fyrsta þættinum heimsækir fréttamaður AFP aldraðan Trotskí til Mexíkó þar sem hann minnist byltingarinnar 1917 og borgarastríðsins milli Bolsjevika og andstæðinga þeirra sem fylgdi í kjölfarið.

Trotskí telur sig þar vera að ræða við kanadískan blaðamann, en er í raun að ræða við spænska njósnarann Ramon Mercarder sem Stalín sendi til að myrða hann.

Ungum Trotskí í borginni Odessa í Úkraínu bregður einnig fyrir. Þar lemur fangavörður hann í einangrun og níðir hann fyrir að vera gyðingur. „Uppreisnarsinnar og gyðingar skilja ekki rússnesku þjóðina,“ segir fangavörðurinn.

Það telst því óneitanlega sérstakt að Trotskí tók upp eftirnafn fangavarðarins, en ættarnafn Trotskís sjálfs var Bronstein. Þættirnir vísa oft í gyðinglegan uppruna Trotskís, en leikstjórinn neitar því að gyðingahatur setji nokkurn svip á þættina.

„Ég er gyðingur. Við erum ekki að taka afstöðu til spurningarinnar um gyðinga. Við þurfum að taka afstöðu til rússnesku spurningarinnar,“ segir Tsekalo. 

Miskunnarlaus og útsmoginn snillingur

Sá Trotskí sem dreginn er upp mynd af í þáttunum er miskunnarlaus og útsmoginn snillingur. Í einu atriðinu fyrirskipar hann til að mynda að einn tíundi af liðhlaupum úr Rauða hernum verði skotnir og gefur bónda nokkrum úr sitt, áður en hann stígur upp í lestarvagninn aftur og setur á sig annað gullúr.

Tsekalo fullyrðir að rússnesk stjórnvöld hafi ekki reynt að hafa nein áhrif á gerð þáttanna, en Rás 1 er vel þekkt fyrir fréttaflutning sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum. Tsekalo segir „ekkert hafa verið til að ritskoða“. Hann ræddi engu að síður atriðin og skilaboðin með þáttunum við Ernst.

Leon Trotskí, sem hét Lev Davidovitch Bronstein áður en hann …
Leon Trotskí, sem hét Lev Davidovitch Bronstein áður en hann skipti um nafn. AFP

Sagnfræðilegu skilaboðin með þáttunum eru að „það ætti ekki að neyða fólk til að hópast út á strætin og að byltingu fylgi alltaf blóð,“ segir Tsekalo. Sú skoðun er raunar alveg í takt við hugmyndir ráðamanna í Kreml.

Vladimír Pútín hefur nú verið við völd í Rússlandi í tæp 18 ár og allt tal um byltingu er bannvara. Raunar virðist rússneska ríkið vera tregt til að gera nokkuð til að minnast aldarafmælis byltingarinnar 1917.

„Ríkið tekur ekki þátt í að minnast árhundraðsins, það fylgist bara með,“ segir rússneski sagnfræðingurinn Nikita Petrov.

Allar byltingar slæmar

„Skilaboðin frá Kreml eru að allar byltingar séu slæmar – sérstaklega þær sem eru fjármagnaðar erlendis frá,“ segir Petrov. Rússneskir ráðamenn hafa fordæmt byltingar í nágrannaríkjunum Úkraínu og Georgíu sem þeir fullyrða að hafi verið fjármagnaðar af Vesturlöndum.

Vesturveldin eru líka sýnd hafa átt hönd í máli í byltingunni 1917 og í einu atriði Trotskí þáttanna sem gerist í París spyr þýskur leyniþjónustumaður rússneska marxistann Alexander Parvus hversu mikið hann telji að það kosti að eyðileggingu Rússland með byltingu. „Milljarð marka,“ svarar Parvus og brosir.

Tsekalo segir það líka vera „vel skráða staðreynd“ að Vesturveldin vildu eyðileggja Rússland af því að það var að verða „sterkt kapítalistaríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert