Sá valdamesti eftir Maó

Xi Jinping og Jiang Zemin.
Xi Jinping og Jiang Zemin. AFP

Leiðtogi Kína, Xi Jinping, var hækkaður í tign á flokksþingi kínverska Kommúnistaflokksins í dag þegar samþykkt var að skrá nafn hans og hugmyndafræði í stjórnarskrá flokksins við hlið Maó Zedong formanns. Því er ljóst að Xi verður að ósk sinni - hann er orðinn valdamesti leiðtogi Kína frá tímum Maó.

Þykir ekki lengur útilokað að Xi verði leiðtogi flokksins út ævina en venja er að skipta út mönnum í fastanefnd flokksins sem eru eru 68 ára eða eldri þegar flokksþingið er haldið. Slík flokksþing eru haldin á fimm ára fresti í Kína. 2.287 fulltrúar á þinginu eiga að kjósa 205 manna miðstjórn, sem velur síðan 25 menn í stjórnmálaráð flokksins og sjö manna fastanefnd þess. Þessir sjö menn verða þeir valdamestu í Kína næstu fimm árin.

Frá árinu 2002 hefur verið venja að miðstjórnin skipti út þeim mönnum í fastanefndinni sem eru 68 ára eða eldri þegar flokksþingið er haldið. Þetta er óskrifuð regla sem Jiang Zemin, þáverandi forseti, kom á til að losna við aldraðan keppinaut úr fastanefndinni.

Maó, stofnandi Kommúnistaflokks Kína, og hugmyndafræðingurinn á bak við markaðsvæðingu landsins, Deng Xiaoping, eru þeir einu af kínversku leiðtogunum sem eru nefndir á nafn í stjórnarskrá flokksins og Maó var sá eini sem enn var á lífi þegar nafn hans var skráð á spjöld sögunnar.

Xi, sem er 64 ára, stýrði lokaumræðunni á flokksþinginu sem staðið hefur í viku þar sem stjórnarskrárbreytingarnar voru samþykktar. 

Með því að nafn hans er komið í stjórnarskrána hefur hann síðasta orðið varðandi öll pólitísk mál og gæti verið leiðtogi landsins, þrátt fyrir að hætta sem aðalritari þegar seinna kjörtímabili hans lýkur árið 2022.

Samkvæmt stjórnarskrá Kína getur enginn gegnt embættum forseta landsins og forsætisráðherra lengur en í tvö fimm ára kjörtímabil. Hins vegar eru engar reglur um hversu lengi menn geta gegnt embættum í flokknum þar sem völdin liggja í raun, t.a.m. embætti aðalritara og formennsku í valdamiklum nefndum. 

Auk þess að vera forseti Kína hefur Xi gegnt embætti aðalritara í flokknum og formennsku í nefnd sem stjórnar hernum. Hann hefur reyndar fengið svo marga titla að hann hefur verið kallaður „formaður alls“ í Kína. Forsetinn hefur verið hafinn til skýjanna í fjölmiðlum og lögreglan hefur handtekið menn sem hafa gagnrýnt stefnu hans.

Þegar Xi komst til valda fyrir fimm árum hét hann því að koma á markaðsumbótum og auka svigrúm einkafyrirtækja í Kína. Hann íhugaði jafnvel að leysa upp stofnun sem hefur umsjón og eftirlit með stærstu ríkisfyrirtækjum landsins, skipar til að mynda forstjóra þeirra.

Þróunin hefur hins vegar verið þveröfug í Kína síðustu árin. Miðstýringin hefur verið aukin í efnahagnum, þrengt hefur verið að einkafyrirtækjum, stóru ríkisfyrirtækin hafa stækkað og stjórnin hefur aukið völd stofnunarinnar sem Xi íhugaði að leggja niður. Á sama tíma hafa skuldir ríkisins aukist verulega og hagvöxtur minnkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert