Bush eldri biðst afsökunar á áreitni

George Bush á umræddu styrktarkvöldi fyrir þá sem urðu illa …
George Bush á umræddu styrktarkvöldi fyrir þá sem urðu illa úti í fellibyl í haust. Mynd / AFP

George Bush eldri, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur beðið leikkonuna Heather Lind afsökunar á að hafa valdið henni þjáningu. Lind ásakaði Bush, sem er 93 ára gamall, um að hafa áreitt sig kynferðislega fyrir þremur árum.

Á samfélagsmiðlinum Instagram sagði Lind að forsetinn fyrrverandi hefði „snert hana að aftan úr hjólastól“ og sagt „klámfenginn brandara“ á meðan þau sátu fyrir á ljósmynd. BBC greinir frá þessu.

Leikkonan Heather Lind.
Leikkonan Heather Lind. Mynd / IMDB

Myndi aldrei skaða viljandi

Hún hefur núna eytt færslunni. Í frétt BBC kemur fram að talsmaður Bush hafi sagt að um hafi verið að ræða tilraun til að gera gys. „Forsetinn myndi aldrei - undir nokkrum kringumstæðum - viljandi valda nokkurri manneskju þjáningu. Hann biðst einlæglega afsökunar ef tilraunin til að gera að gamni sínu hefur gengið fram af frú Lind,“ segir í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla sem fjölluðu um málið, svo sem Daily Mail og tímaritið People.

Bush var forseti Bandaríkjanna á árunum 1989 til 1993 og er faðir George W. Bush, sem gegndi sama embætti á árunum 2001 til 2009. Hann glímir við Parkinsons-sjúkdóminn.

Atvikið mun hafa átt sér stað á viðburði fyrir sjónvarpsþættina Turn: Washingston's Spies. Í þeim þáttum fer Lind með eitt af aðalhlutverkum.

Sambærileg mynd

Í færslu sinni á Instagram mun Lind hafa sagt að hún gæti annað en sagt frá, eftir að hafa séð mynd af Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, taka í hönd Bush. Sú mynd var tekin á viðburði þar sem peningum var safnað fyrir fórnarlömb fellibyls.

„Hann áreitti mig kynferðislega þegar ég sat fyrir á sambærilegri mynd,“ sagði hún á Instagram. „Hann tók ekki í höndina á mér. Hann snerti mig aftan frá, í hjólastólnum sínum, á meðan eiginkona hans, Barbara Bush, stóð honum við hlið.“

Hún bar að hann hefði því næst sagt klámfenginn brandara og að myndatöku lokinni hefði hann snert hana aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert