Þöggun og áreitni á ritstjórn

#MeToo
#MeToo AFP

Stærsta dagblað Svíþjóðar stendur frammi fyrir alvarlegu vandamáli - kynferðislegu ofbeldi og áreitni á vinnustað. Tveir starfsmenn Aftonbladet hafa verið kærðir fyrir nauðgun. Á sama tíma liggja yfirmenn ritstjórnar undir ámæli fyrir að leyfa áreitni á vinnustaðnum að viðgangast.

Dagens Næringsliv fjallar ítarlega um þetta í gær og í dag og hafa fleiri norrænir fjölmiðlar tekið málið upp.

Nokkrir kvenkyns blaðamenn Aftonbladet hafa staðfest kynferðislega áreitni á blaðinu í samtölum við DN. Meðal annars hvernig þekktir blaðamenn hafi árum saman komist upp með áreitni á vinnustað.

DN ræddi við 20 núverandi og fyrrverandi starfsmenn Aftonbladet sem hafa staðfest að kynferðisleg áreitni hafi viðgengist þar árum saman. Á sama tíma ríki þöggun á Aftonbladet um þessa vinnustaðamenningu.

DN tekur sem dæmi einn þekktasta og virtasta blaðamann Aftonbladet og samskipti hans við konur á ritstjórninni. Hvernig hann komist upp með hroka og yfirgang í þeirra garð án þess að nokkur segi orð. 16. október greinir sænsk fjölmiðlakona frá nauðgun í frásögn sem hún ritar á samfélagsmiðla. Hún nafngreinir ofbeldismanninn en hann er þekktur blaðamaður á Aftonbladet.

Árum saman hafi ungar konur sem hefja störf á Aftonbladet verið varaðar við tveimur körlum á vinnustaðnum, samkvæmt frétt DN. Annar þeirra er blaðamaðurinn sem sakaður er um nauðgun í færslu fjölmiðlakonunnar og hinn er blaðamaðurinn sem fjallað er um hér að ofan. 

Kona sem starfaði sem blaðamaður hjá Aftonbladet fyrir tíu árum lýsir því hvernig hún varð fyrir árásum af hálfu blaðamannsins. Hún hafði nýlokið háskólanámi í blaðamennsku og Aftonbladet var fyrsti fjölmiðillinn sem hún starfaði á.

Hún vann á vöktum líkt og venja er á dagblöðum. Yfirleitt lauk vaktinni á miðnætti og þá var oft farið á krá sem nefnist Kvarnen á Södermalm. 

Eitt kvöld sem oftar var farið á krána og meðal þeirra var viðkomandi blaðamaður. „Í hans sjúku veröld fór hann að áreita mig sem hann taldi vera viðreynslu. Hann byrjaði að tala um að við skyldum drífa okkur heim til hans, fá okkur kókaín og stunda endaþarmsmök. Ég sagði nei, takk, aldrei í lífinu,“ segir blaðakonan í viðtali við DN.

En blaðamaðurinn gaf sig ekki og hélt ítrekað áfram án þess að nokkur segði orð. „Að lokum var ég búin að fá nóg og sagði: Þú ert síðasta manneskjan á jörðinni sem ég færi heim með og svæfi hjá.“ Við þetta reiddist hann og sagði: „Við förum heim saman og ég tek þig í rassinn á harkalegan hátt.“

Hún segir að maðurinn hafi sagt þetta aftur og aftur og þetta endaði með því að hún brast í grát. „Ég sem græt aldri. En þetta var of mikið. Ég var gjörsamlega eyðilögð.“

Öll umfjöllun DN á áskriftarsíðu blaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert