23 þingmenn áreittir í starfi

Sænska þinghúsið.
Sænska þinghúsið. Holger.Ellgaard /Wikipedia

Á þriðja tug sænskra þingmanna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vettvangi stjórnmálanna. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem birt var í Expressen.

Þar kemur fram að 23 þingmenn svara því játandi að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða kynferðislegu ofbeldi í starfi.

„Fyrir utan alla hatursumræðuna á netinu, sem hefur oft grófan kynferðislegan undirtón, hef ég orðið fyrir einnig upplifað óvelkomnar hendur þuklandi á mér á sviði stjórnmálanna,“ segir Annie Lööf, leiðtogi sænska Miðflokksins.

„Við teljum að við búum í jafnréttisþjóðfélagi en áreitni á sér stað hér líka,“ segir Linda Snecker, þingmaður Vinstriflokksins. 

„Í nokkur ár hef ég orðið fyrir kynferðislegri áreitni í smá skilaboðum, bæði þegar ég var að hefja stjórnmálaferilinn og þegar ég hóf störf á þingi. Ég hef fengið sendar myndir og alls konar kynlífsóra fólks. Í eitt skiptið leiddi þetta til sakfellingar sem var stórsigur í mínum huga,“ segir Snecker.

Spurningarlistinn var sendur til 347 af 349 þingmönnum á sænska þinginu. Voru þeir spurðir hvort þeir hefðu upplifað kynferðislega áreitni/ofbeldi í tengslum við starf þitt sem stjórnmálamaður? Af 101 svari sem barst sögðu 23 að þeir hefðu orðið fyrir slíku ofbeldi í starfi. Inni í þeirri tölu eru bæði konur og karlar en konur eru í miklum meirihluta. Fimm sögðust hafa orðið fyrir áreitni af hálfu annarra þingmana.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, fór fram á það að gripið yrði til aðgerða af hálfu stjórnmála til að koma í veg fyrir kynbundna áreitni. Hún lofaði þær mörgu konur sem hafa stigið fram í tengslum við átakið #MeToo.

Wallström segir að þetta séu hugrakkar konur og stúlkur um allan heim sem þarna hafi stigið fram. Hún segist velta því fyrir sér, þá sem stjórnmálamaður, hvað hægt sé að gera?

Þessi tegund aðgerða sé einfaldlega ekki nóg. Grípa þurfi til róttækra aðgerða.

Þegar hún er spurð að því hvort hún hafi sjálf upplifað slíka áreitni svarar hún: „Ég vil ekki tala um það því mér finnst það of persónulegt en ég staðfest að þetta gerist á æðstu stöðum á stjórnmálasviðinu og já ég hef upplifað það.“

Hundruð sænskra kvenna hafa stigið fram undir myllumerkinu #MeToo og má þar nefna konur í fjölmiðlum, leikhúsi, skemmtikrafta og fólk í tæknigeiranum.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is hefur verið upplýst um kynbundið ofbeldi á sænskum fjölmiðlum og hefur einn þekktasti sjónvarpsmaður Svía, Martin Timell, verið tekinn af dagskrá og einn helsti blaðamaður Aftonbladet, Fredrik Virtanen, sendur í leyfi. Fréttaþulur sænska ríkissjónvarpsins, Lasse Kronér, er einnig meðal þeirra sem hafa verið sakaðir um kynferðislega áreitni í garð samstarfskvenna.

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert