Norskum ráðherra nóg boðið

Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála og þingmaður Framfaraflokksins í Noregi,
Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála og þingmaður Framfaraflokksins í Noregi, Facebook-síða Sylvi Listhaug

Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála og þingmanni Framfaraflokksins í Noregi, er nóg boðið eftir að rasistar létu fúkyrðum rigna á samfélagsmiðlum í kjölfar myndbirtingar hennar á Facebook. Myndirnar eru teknar í heimsókn hennar til sýrlenskrar fjölskyldu.

Innflytjendamál og málefni hælisleitenda hafa verið mjög í umræðunni í Noregi líkt og víðast hvar í heiminum og þykir Framfaraflokkurinn reka harða stefnu gegn frekari fjölgun innflytjenda og hælisleitenda.

Listhaug hefur þar verið framarlega í flokki en nú er henni nóg boðið yfir því sem virkir í athugasemdum hafa látið út úr sér á samfélagsmiðlum. Snýst málið meðal annars um rétt kvenna sem eru múslímar til að ganga með slæðu (hijab).

Listhaug þáði boð sýrlenskrar flóttafjölskyldu um að koma í heimsókn á heimili þeirra í Finnmörk fyrr í vikunni. Fjölskyldan býr í Mehamn og var tilgangur heimsóknarinnar í héraðið að sjá hvernig flóttafólki hefur gengið að fóta sig í héraðinu.

Sama kvöld birti hún myndir á facebooksíðu sinni og voru margir sem höfðu þörf fyrir að tjá sig um þær. Ummæli eins og „gleymdu því að reyna að aðlaga þetta fólk,“, „þetta eru heiðnir lygalaupar,“ og „ekki fylla sveitarfélög með fólki eins og þeim þegar það er ekki næg atvinna fyrir Norðmenn sem búa hér“ eru meðal þess sem fylgjendur ráðherrans skrifuðu.

Mörg ummælanna beindust að höfuðklút sýrlensku móðurinnar (sem hyl­ur aðeins hár og háls – hijab). Líkt og flestir vita er ekki hægt að rekja upp­runa slæðunn­ar beint til íslams þar sem sá siður að kon­ur hyldu sig á ein­hvern hátt fyrirfannst löngu fyr­ir tíma íslams. Elstu dæmi um slíkt er að finna í Mesópóta­míu fyr­ir um 5.000 árum.

„Taktu höfuðfatið ofan svo þið getið aðlagast SÓMASAMLEGA,“ er meðal ummæla. „Farið heim til ykkar lands og byggið það upp. Þar getið þið gengið með hijab alla daga,“ skrifar annar. „Sylvi, ég styð þig í níu skipti af tíu en þetta er undantekning,“ segir enn fremur.

Sætti mig aldrei við móðganir eða hótanir

Ummælin voru svo neikvæð að Listhaug ákvað að birta þau opinberlega og svara þeim. 

„Ég tel að þetta sé merki um að ég verði að tjá mig skilmerkilega. Ég mun aldrei sætta mig við móðganir eða hótanir. Ég var boðin í kaffi og köku á heimili góðrar fjölskyldu sem kemur frá Sýrlandi. Þetta var mjög notaleg stund og þau einstaklega gestrisin,“ segir Listhaug í viðtali við VG.

Fjölskyldufaðirinn biður um það í viðtali við VG að myndirnar verði ekki birtar framar vegna allra þessara neikvæðu ummæla. „Mér þykir þetta mjög leitt,“ segir hann.

Listhaug tekur fram að hún sé á móti því að börn gangi með hijab og hún telji ekki að búrkur eða niqab eigi erindi í norskt samfélag. Niqab hylur allan líkamann nema augun og tíðkast meðal annars í Jemen. Búrka er slá sem hylur konuna frá toppi til táar og konan sér eingöngu í gegnum net, segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Málfrelsi ein af grunnstoðum ríkisins

„En fullorðin kona hefur rétt á því að klæðast því sem henni sýnist á heimili sínu. Það er allt í lagi að hafa ólíkar skoðanir og við ættum að taka það til greina. En þegar árásirnar eru svona margar og ummælin dónaleg þá er mér nóg boðið,“ segir Listhaug í viðtali við VG.

„Í Noregi er málfrelsi eitt af grundvallaratriðunum og rétturinn til að ræða mikilvæg og erfið samfélagsleg málefni. Ég hvet til þess en ég dreg línurnar þegar umræðan verður skítkast. Þessi móðir á ekki skilið svo ógeðsleg ummæli heldur aðeins vingjarnleg og að vera tekið opnum örmum. Þetta er ósanngjarnt og þetta er ekki norskt,“ bætir hún við.

Ráðherrann segist ekki hafa neitt á móti því að vera gagnrýnd af þeim sem líta á sig sem stuðningsmenn hennar.

„Ég fæ á mig gagnrýni úr ólíkum áttum og ég er sátt við það. Það að styðja stranga stefnu varðandi alþjóðlega vernd og innflytjendur þýðir ekki að þú sért rasisti og illgjarn. Flestum tekst að halda umræðunni á kurteislegum nótum en þegar fólk gerir það ekki og fer yfir línuna reyni ég að svara því,“ segir Listhaug.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert