Katalónska þingið samþykkir sjálfstæðisyfirlýsingu

Forseti heimastjórnar Katalóníu, Carles Puigdemont (lengst til hægri) fagnar sjálfstæðisyfirlýsingu …
Forseti heimastjórnar Katalóníu, Carles Puigdemont (lengst til hægri) fagnar sjálfstæðisyfirlýsingu þingsins ásamt ráðherrum heimstjórnarinnar, Oriol Junqueras, Jordi Turull og Raul Romeva. AFP

Katalónska þingið hefur samþykkt að héraðið muni lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni. 

Í atkvæðagreiðslunni, sem var leynileg, greiddu 70 þingmenn með tillögunni, tíu gegn henni og tveir þingmenn skiluðu auðu. BBC greinir frá. 

Á sama tíma hefur Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, lagt fram tillögu á efri deild spænska þingsins þar sem hann leggur til heimastjórn Katalóníu verði svipt völdum og að héraðið heyri alfarið undir ríkisstjórn Spánar.

Í frétt BBC kemur fram að Rajoy segir að hann hafi þurft að grípa til þessa örþrifaráðs, það er að svipta Katalóníu sjálfsstjórn, þar sem það sé eina leiðin til að koma á lögum, lýðræði og stöðugleika í Katalóníu. Hann sakaði heimastjórnina í Katalóníu um að hafa tvístrað fjölskyldum og brotið niður samfélagið.

Rajoy sagði jafnframt að fjöldi fólks hefði nú þegar gengið í gegnum mikla erfiðleika og að óstöðugleikinn væri að fæla fjölda fyrirtækja í burtu frá héraðinu.

Þingmenn efri deildarinnar klöppuðu Rajoy lof í lófa þegar hann lauk máli sínu. Búist er við því að tillaga Rajoy verði samþykkt, enda hefur Lýðflokkurinn (Partido Popular) meirihluta í efri deildinni. 

Verði tillagan samþykkt mun þingið virkja 155. grein spænsku stjórnarskrárinnar sem heimilar ríkisstjórninni að svipta hérað sjálfsstjórnarvaldi sínu. Með því munu stjórnvöld í Madrid meðal annars taka yfir efnahagsmál, lögreglu og fjölmiðla sem reknir eru af heimastjórninni. Þá verður Carles Puigdemont settur af sem forseti heimastjórnar Katalóníu, sem og ríkisstjórn hans. 

Þingmenn efri deildarinnar klöppuðu fyrir Rajoy eftir að hann lauk …
Þingmenn efri deildarinnar klöppuðu fyrir Rajoy eftir að hann lauk máli sínu. Hann leggur til að heimastjórn Katalóníu verði svipt sjálfsstjórn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert