Þýskaland viðurkennir ekki sjálfstæði Katalóníu

Carles Puigdemont, forseti heimastjórnar Katalóníu, söng þjóðsöng Katalóníu í þinginu …
Carles Puigdemont, forseti heimastjórnar Katalóníu, söng þjóðsöng Katalóníu í þinginu fyrr í dag. AFP

Þýskaland viðurkennir ekki einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu, að sögn talsmanns þýsku ríkisstjórnarinnar. Hann kallar eftir betra samtali milli ríkja.

„Þýska ríkisstjórnin viðurkennir ekki þessa sjálfstæðisyfirlýsingu,“ skrifaði talsmaðurinn, Steffen Seibart, á Twitter. „Fullveldi Spánar og lögsaga þess er og mun alltaf verða órjúfanleg,“ bætti hann við.

„Við vonum að aðilar málsins muni nýta öll tækifæri til þess að ræða saman og draga úr spennu.“

Fyrr í dag hafði katalónska þingið lýst því yfir að það myndi lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni. Á sama tíma lagði Mariano Rajoy, for­sæt­is­ráðherra Spán­ar, fram tillögu á efri deild spænska þings­ins þess efnis að heima­stjórn Katalón­íu verði svipt völd­um og að héraðið heyri al­farið und­ir rík­is­stjórn Spán­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert