Lét ritarann kaupa kynlífsleikföng

AFP

Þingmaður breska Íhaldsflokksins og ráðherra, Mark Garnier, er sakaður um að hafa beðið ritara sinn um að kaupa fyrir sig kynlífsleikföng og að hafa talað við hana  á niðurlægjandi hátt.

Forsætisráðuneytið mun rannsaka hegðun Garniers og hvort hann hafi brotið siðareglur sem gilda um ráðherra, segir heilbrigðisráðherra, Jeremy Hunt í viðtali við BBC. 

„Ef þessar sögur eru réttar þá er það algjörlega óásættanlegt,“ sagði Hunt í viðtali við BBC.

Talsmaður forsætisráðuneytið staðfestir að rannsókn muni fara fram á Garnier sem er kvæntur þriggja barna faðir. 

Fyrrverandi ritari Garnier, Caroline Edmondson, segir í viðtali við The Mail on Sunday að þingmaðurinn hafi látið hana fá peninga til að kaupa tvo titrara í kynlífsverslun í London árið 2010.

Edmondson, sem nú starfar fyrir annan þingmann, segir að Garnier hafi einnig lýst henni á klúran hátt fyrir framan fullt af fólki. Ekki náðist í Garnier þegar fréttamenn AFP leituðu eftir því í dag.

Garnier viðurkennir þetta í samtali við blaðið og segir kynlífsleikföngin ekki vera tiltökumál. 

Þingmaðurinn er einn nokkurra breskra stjórnmálamanna sem ratar inn í fjölmiðlaumræðu helgarinnar í Bretlandi í tengslum við kynferðislega áreitni.

Fyrrverandi ráðherra Íhaldsflokksins, Stephen Crabb, baðst í gær afsökunar eftir að upplýst varð um kynferðislega berorð skilaboð til ungrar konu sem var að sækja um starf hjá honum. 

Hunt segir þetta slæmt til afspurnar því foreldrar, sem eigi dætur sem stundi nám í stjórnmálafræði  og vonist til þess að fá starf í stjórnsýslunni að námi loknu, eigi rétt á því að vera öruggir um að ef dætur þeirra fái starf þar að þeirra bíði ekki hegðun af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert