Styrkur koltvísýrings eykst á óþekktum hraða

AFP

Styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur náð nýjum hæðum og grípa þarf til róttækra aðgerða til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðlegu veðurfræðistofnunarinnar (WMO).

Í skýrslunni kemur fram að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hafi aukist á áður óþekktum hraða á síðasta ári, vegna mannlegra athafna og El Nino veðurfyrirbærisins. AFP-fréttastofan greinir frá. 

Sambærilegur styrkur koltvísýrings var síðast í andrúmsloftinu fyrir þremur til fimm milljónum ára, þegar sjávarhæð var 20 metrum hærri en núna. Styrkur koltvísýrings mældist vera um 400 ppm (e. parts per million) í heiminum, þ.e. meðalgildi, árið 2015 en ári síðar hafi gildið hækkað í 403,3 ppm.

„Ef ekki verður gripið róttækra aðgerða strax til að draga úr koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu munum við sjá hættulega hækkun á hitastigi jarðar áður en þessi öld líður undir lok,“ sagði Petteri Taalas, forstjóri stofnunarinnar, í yfirlýsingu eftir að skýrslan var birt.

Parísarsamkomulagið til að sporna við hlýnun jarðar var undirritað af 196 ríkjum heims fyrir tveimur árum, en eftir að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ákvað að draga þjóð sína út úr samkomulaginu, er áskorunin um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda enn stærri.

Umræða um þær aðgerðir sem ákveðnar hafa verið og hvaða frekari aðgerða er hægt að grípa til munu eiga sér stað á loftslagsráðstefnu sem fer fram í Bonn í Þýskalandi í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert