Árásarmaðurinn er frá Úsbekistan

Úsbeki, sem var búsettur í Flórída, drap átta manns og særða 11 alvarlega þegar hann ók yfir hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur á Manhattan í New York í gær. Flestir þeirra sem létust eru útlendingar. Bandaríkjaforseti boðar hertara eftirlit með útlendingum sem koma til Bandaríkjanna.

Sayfullo Saipov er 29 ára frá Úsbekistan en búsettur í …
Sayfullo Saipov er 29 ára frá Úsbekistan en búsettur í Flórída í Bandaríkjunum. AFP

Árásarmaðurinn, Sayfullo Saipov, 29 ára, var búsettur í Tampa í Flórída en hafði nýlega komið til New Jersey og þar hafði hann leigt pallbílinn sem hann notaði við árásina. Saipov var særður af lögreglu á vettvangi eftir að hafa ekið niður hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur áður en hann ók á skólabíl. Þetta er fyrsta banvæna árásin, sem er skilgreind sem hryðjuverkaárás, í New York frá 11. september 2011. 

AFP

Árásin var gerð skammt frá minnisvarðanum um þá sem létust í árásinni 2001, West Side á Lower Manhattan. Skólar eru skammt frá árásarstaðnum en þar höfðu foreldrar og börn komið saman til þess að fagna hrekkjavökunni sem var í gær.

„Þetta er hryðjuverk og einstaklega huglaust hryðjuverk sem beint var að saklausum borgurum. Beint gegn fólki sem átti sér einskins ills von,“ segir borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio.

Lögreglan bar fljótt kennsl á árásarmanninn en hann hafði verið sektaður í Missouri í fyrra fyrir umferðarlagabrot. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti honum sem mjög biluðum og sturluðum náunga.

AFP

Trump hefur fyrirskipað heimavarnarráðuneytinu að flýta því að grípa til aðgerða gegn erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim, það er að auka bakgrunnseftirlit með fólki sem óskar eftir landvistarleyfi í Bandaríkjunum.

Bandaríkin mega ekki heimila vígamönnum Ríkis íslam að snúa aftur eða koma til landsins eftir að hafa tekið þátt í bardögum erlendis, segir Trump en borgaryfirvöld hafa ekki tengt árásarmanninn við neinn ákveðinn öfgahóp opinberlega. 

Að sögn lögreglu ók Saipov á pallbíl, sem hann hafði leigt hjá Home Depot, eftir hjóla- og göngustíg þar sem ferðamenn og íbúar New York nutu síðdegissólarinnar (klukkan var 15:05 þegar árásin var að gerð að staðartíma - 19:05 að íslenskum tíma). Þaðan ók hann á skólabíl og særði tvö börn og tvo fullorðna í árekstrinum.

Síðan fór árásarmaðurinn út úr bifreiðinni vopnaður litakúlubyssu og loftbyssu, en var skotinn í kviðinn af lögreglu og færður í varðhald á sjúkrahúsi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hann fór í aðgerð í gærkvöldi og er talið að hann lifi af.

AFP

Sex létust á vettvangi en tveir voru úrskurðaðir látnir á sjúkrahúsi. Ellefu voru fluttir með alvarlega áverka á sjúkrahús en enginn þeirra eru lífshættu.

Fimm Argentínumenn og belgísk kona meðal látinna

Fimm Argentínumenn eru meðal þeirra sem létust auk þess sem belgísk kona lést og þrír Belgar eru slasaðir. Argentínumennirnir eru allir frá borginni Rosario en þeir voru í hópi vina sem var að fagna þrjátíu ára útskriftarafmæli frá tækniskóla. Einn úr vinahópnum er á sjúkrahúsi.

Þjóðarleiðtogar í Evrópu og Mexíkó hafa fordæmt árásina. „Saman munu við berjast gegn vonsku hryðjuverkamanna,“ segir Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.  Forseti Frakklands,Emmanue lMacron, segir að baráttan fyrir frelsi sameini fólk meira en nokkru sinni fyrr.

AFP

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að Saipov hafi kallað Allahu akbar - Guð er mikill - og lögreglustjóri borgarinnar, James O'Neill, hefur staðfest að árásarmaðurinn hafi gefið yfirlýsingu þegar hann fór út úr bílnum. Hann segir að teknu tilliti til þess sem árásarmaðurinn sagði og hvernig aðkoman var á vettvangi þá sé óhætt að telja að um hryðjuverk hafi verið að ræða. 

Bæði lögreglan í New York og bandaríska alríkislögreglan biður almenning að hafa samband búi hann yfir einhverjum upplýsingum sem nýtast við rannsóknina. Bill de Blasio segir að við fyrstu sýn virðist sem árásarmaðurinn hafi verið einn að verki.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert