Rannsaka Weinstein og Toback

Harvey Weinstein og James Toback.
Harvey Weinstein og James Toback. AFP

Lögreglan í Beverly Hills rannsakar nú fjölmargar ásakanir á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein og leikstjóranum James Toback. Þeir eru báðir sakaðir um kynferðislega áreitni og ofbeldi í garð fjölmargra kvenna.

Upplýsingar um áreitni af hálfu Weinstein voru birtar í New York Times í síðasta mánuði og hvatti New Yorker fleiri konur til þess að stíga fram. Í kjölfarið fór af stað bylgja frásagna sem er hvergi nærri hætt. Þar lýsa konur kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem þær hafa orðið fyrir af hálfu þekktra einstaklinga í Hollywood og víðar.

Ekki eru birtar upplýsingar um kvartanirnar sem borist hafa til lögreglunnar um árásir af hálfu tvímenninganna. 

Yfir 50 konur, þar á meðal Gwyneth Paltrow, Angelina Jolie og Mira Sorvino, hafa sakað Weinstein um kynferðislegt ofbeldi og áreitni en hann neitar sjálfur öllum ásökunum.

Los Angeles Times birti viðtöl við 38 konur sem saka Toback um kynferðislegt ofbeldi og í kjölfarið streymdu til blaðsins símtöl og tölvupóstar frá yfir 200 konum sem höfðu verið áreittar kynferðislega. Líkt og Weinstein neitar Toback ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert