„Sekur um svo miklu meira

Mexíkóski leikarinn Roberto Cavazos sakaði í gær Kevin Spacey um kynferðislega áreitni en daginn áður hafði leikarinn Anthony Rapp gert það sama. Cavazos segir að fjölmargar ásakanir á hendur Spacey séu væntanlegar. Hann sé sekur um svo miklu meira.

Cavazos, sem lék í nokkrum leikritum í Old Vic leikhúsinu í London þegar Spacey var listrænn stjórnandi þess, segir að Spacey hafi markvisst níðst á ungum karlleikurum.

„Eina skilyrðið virtist vera í huga Spacey að viðkomandi væri yngri en þrítugt og karlkyns svo hann gæti snert okkur að vild,“ skrifar Cavazos á Facebook.

Hann segir að Rapp, bandaríski leikarinn sem sakaði Spacey um að hafa áreitt hann kynferðislega þegar hann var 14 ára og Spacey var 26 ára, væri langt því frá sá eini sem hafi orðið fyrir barðinu á Hollywood-stjörnunni.

„Þeir okkar sem urðu á vegi Spacey í London, þegar hann var stjórnandi Old Vic, vita um miklu fleiri sem munu hafa kjark til þess að segja sögu sína á næstu dögum og vikum,“ segir Cavazos.

„Það kæmi mér ekki á óvart að það væru álíka margir og í máli Weinstein,“ bætir hann við og vísar til tugi kvenna sem hafa sakað Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi.

Cavazos, 35 ára, starfar bæði í leikhúsi og kvikmyndum en meðal mynda sem hann hefur leikið í eru Rush og El Beso.

Hann lét í þremur leikritum í Old Vic leikhúsinu á meðan Spacey starfaði þar sem listrænn stjórnandi á árunum 2004-2015. Í fyrsta skiptið árið 2008 þegar hann var 26 ára og Spacey 49 ára. 

Hann segist hafa náð að verjast Spacey í tvígang en ekki hafi allir haft kjark til þess að verjast.

„Ég veit hreinlega ekki hversu margir sögðu mér svipaða sögu: Spacey bauð þeim á fund til þess að ræða feril þeirra. Þegar þeir komu í leikhúsið hafði hann undirbúið „kampavíns nestisferð“ (champagne picnic) á sviðinu við fallega birtu,“ skrifar hann á Facebook og síðan Twitter.

Hann segir framhaldið mismunandi - allt eftir því hversu langt var gengið á sviðinu en tæknin var alltaf sú sama, segir Cavazos. Hann segir að Spacey hafi haldið til á leikhúsbarnum þar sem hann þrýsti sér upp að hverjum sem fangaði athygli hans. Það hafi hann sjálfur upplifað á eigin skinni. „Ég gaf mig aldrei á hans vald en ég veit að sumir voru of hræddir til þess að stöðva hann,“ segir leikarinn enn fremur og að slík kynferðisleg áreitni sé viðvarandi í leikhúsheiminum. 

Spacey hefur beðið Rapp afsökunar á Twitter og greint frá því opinberlega að hann sé samkynhneigður. Segja margir að með því hafi hann viljað dreifa athyglinni frá brotinu sjálfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert