Skilaboð send fyrir kurteisissakir

Xi Jinping forseti Kína.
Xi Jinping forseti Kína. AFP

 Xi Jinping forseti Kína hefur sent einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un, skilaboð „fyrir kurteisissakir“. Þetta eru fyrstu opinberu skilaboðin sem farið hafa á milli þeirra tveggja í meira en ár.

Í skilaboðunum fólst von um bætt samskipti ríkjanna en þau hafa minnkað í kjölfar vopnabrölts Norður-Kóreumanna síðustu misseri. Áður var Kína einn helsti bandamaður landsins.

Xi sendi skilaboð sín í gær en áður hafði Kim sent heillaóskir til hans eftir að hann tryggði flokki sínum endurkjör á kínverska þinginu.

Skilaboð Xi hófust á orðunum „félagi formaður“. Samkvæmt norðurkóresku fréttastofunni KCNA sagðist forseti Kína í skilaboðunum vonast til þess að samskipti ríkjanna myndu batna. 

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir að heillaóskir Kim hafi verið meðal fjölda annarra sem bárust forsetanum. Xi hafi aðeins svarað þeim fyrir kurteisissakir.

Sérfræðingar í málefnum ríkjanna segja að skilaboð sem þessi séu orðin fágæt þeirra á milli. Hins vegar hafi heillaóskir yfirleitt verið sendar á merkilegum tímamótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert