Hetja eða skúrkur fyrir að loka á Trump?

Donald Trump Bandaríkjaforseti er með 41,7 milljónir fylgjenda á Twitter …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er með 41,7 milljónir fylgjenda á Twitter og það vakti því fljótt atkvæði þegar síðu hans var lokað. AFP

Sú ákvörðun eins starfsmanna samfélagsmiðilsins Twitter að ljúka síðasta vinnudegi sínum með því að loka twittersíðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur vakið skiptar skoðanir. Twittersíðan, sem forsetinn nýtir sér reglulega til að tjá skoðanir sínar, lá niðri í 11 mínútur og hafa notendur samfélagsmiðla í dag skipst á að lofa starfsmanninn fyrrverandi og vekja athygli á því hættulega fordæmi sem þar hafi verið sett.  

Þeim sem fóru inn á síðu Trumps um sjö í morgun að staðartíma (11 í gærkvöldi að íslenskum tíma) var mætt með skilaboðunum: „Því miður þessi síða er ekki til!“

Upphaflega sagði Twitter um mannleg mistök að ræða en gaf svo út að síðunni hefði verið lokað viljandi af starfsmanni sem var að hætta.

Trump brást ekki við lokuninni fyrr en 12 tímum síðar. „Twittersíðunni minni var lokað í 11 mínútur af óvinveittum starfsmanni. Ætli orðið sé ekki loksins farið að breiðast út og hafa áhrif,“ sagði í twitterskilaboðum forsetans.

Sumir notendur samfélagsmiðla kölluðu starfsmanninn hins vegar „hetju“. Ted Lieu, þingmaður demókrata, skrifaði í sínum twitterskilaboðum: „Kæri twitterstarfsmaður sem lokaðir reikningi Trumps á Twitter: Þú lést Bandaríkjunum líða betur í 11 mínútur. Sendu mér skilaboð og ég mun kaupa Pizza Hut-pítsu fyrir þig.“

Fyrrverandi þingmaðurinn David Jolly sagði á sinni síðu að starfsmaðurinn „gæti verið kandídat til friðarverðlauna Nóbels“.

Ekkert til að hlæja að

Aðrir hafa lýst yfir áhyggjum af málinu og sagði Jennifer Grygiel, prófessor við háskólann í Syracuse, lokunina áhyggjuefni.

„Þetta er ekkert til að hlæja að,“ sagði hún. „Þetta er alvarlegt mál og varðar þjóðaröryggi. Þetta atvik er til merkis um að Twitter hafi ekki næga öryggisvernd fyrir mikilvægar síður.“

Grygiel birti ritgerð fyrr á þessu ári þar sem hún hvatti til „breytinga á síðu Trumps til að koma í veg fyrir að óvart kæmi til stríðs vegna þess að einhver tæki síðuna yfir hvort sem væri í gamni eða alvöru.

„Við þurfum að koma í veg fyrir að starfsnemi geti auðveldlega komist inn á þessa síðu,“ skrifaði hún.

Bætti hún við að sumir reikningar á samfélagsmiðlum gætu verið mikilvægir fyrir þjóðaröryggi eða fjármálamarkaði og á þeim ætti að vera sérstök töf á birtingu, annaðhvort nokkurra sekúndna töf eða að mannshöndin yrði að samþykkja færsluna.

Væri eitthvað eldfimt og um leið rangt birt á slíkri síðu gæti reynst ómögulegt að afturkalla það, sem aftur gæti leitt til stríðs eða hruns á fjármálamarkaðinum.

„Það er áfall að frétta að einhver starfsmaður Twitter hafi getað lokað reikningi forsetans. Hvað ef hann hefði birt fölsk skilaboð í staðinn?“ skrifaði Blake Hounshell, ritstjóri Politico, á twittersíðu sinni. „Hvað ef þessi manneskja hefði tíst tilbúningi um kjarnorkurárás á Norður-Kóreu?“

Trump er með 41,7 milljónir fylgjenda á Twitter og notar reikninginn iðulega til að tjá sig um umdeild mál, sem og til að tilkynna stefnu stjórnar sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert