Vannæring meðal rohingja-barna eykst hratt

Rohingjar á leið í Balukhali flóttamannabúðirnar í Bangladess. Vannæring barna …
Rohingjar á leið í Balukhali flóttamannabúðirnar í Bangladess. Vannæring barna í flóttamannabúðum eykst nú hratt. AFP

Vannæring meðal rohingja-barna í flóttamannabúðum í Bangladess hefur aukist verulega og er nú í sumum tilfellum komin á lífshættulegt stig. Við þessu varar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, en samkvæmt nýjustu tölum samtakanna er útlit fyrir að 7,5% þeirra barna sem nú dvelja í flóttamannabúðunum í Cox Bazar hverfinu í Bangladess eigi á hættu að deyja úr alvarlegri vannæringu.

Rúm­lega 600.000 rohingj­ar, sem eru minni­hluta­hóp­ur múslima í Rak­hine-héraði, hafa frá því í ágúst flúið of­sókn­ir sem þeir hafa sætt af hönd­um hers­ins í Búrma. Hafa Sameinuðu þjóðirnar líkt aðgerðum hersins við þjóðernishreinsanir og sagt ástandið vera mest aðkallandi flóttamannavanda sem heimurinn standi nú frammi fyrir.

Um helmingur þeirra sem í búðunum dvelja eru börn.

„Það er mikið áhyggjuefni að sjá aðstæður þeirra barna sem halda áfram að koma,“ hefur AFP eftir Christophe Boulierac talsmanni UNICEF, sem var nýlega á ferð í búðunum.

Þegar fórnarlömb hörmunganna

UNICEF og samstarfsstofnanir veita nú þegar rúmlega 2.000 alvarlega vannærðum börnum meðferð á 15 meðferðarstöðvum og verið er að setja upp sex stöðvar til viðbótar.

„Rohingja-börnin í búðunum sem hafa lifað af hryllinginn í Rakine-héraðinu í Búrma og hættulega ferðina hingað eru þegar fórnarlömb hörmunganna,“ sagði Edouard Beigbeder fulltrúi UNICEF í Bangladess.

„Þau sem þjást af alvarlegri vannæringu núna eiga á hættu að deyja af orsökum sem má hindra og lækna.“

Vannæring meðal barna í Rakine flokkaðist til neyðarástand, áður en þessar nýjustu ofsóknir hófust.

„Ástand þessara barna hefur versnað enn frekar á langri ferðinni yfir landamærin og aðstæðunum í búðunum,“ segir í yfirlýsingu frá UNICEF.

Um 26.000 manns búa nú í Kutupalong flóttamannabúðunum þar sem blasir við skortur á bæði matvælum og neysluvatni, auk þess sem aðstæður eru heilsuspillandi. Fjölmargir þjást því af niðurgangi og öndunarfærasjúkdómum.

„Við verðum að veita þessum hörmungum mun meiri athygli og leggja meiri leggja meiri áherslu á að afla í aðfanga,“ sagði Beigbeder. „Þessi börn þurfa aðstoð núna strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert