Segja að Trump sé í ójafnvægi

Donald Trump sést hér heilsa upp á bandaríska hermenn sem …
Donald Trump sést hér heilsa upp á bandaríska hermenn sem eru staðsettir á Yokota-herflugvellinum í Fussa í Tókýó, höfuðborg Japans. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja að Donald Trump Bandaríkjaforseti verði að hætta að láta gáleysisleg ummæli falla. Aðvörun þarlendra yfirvalda kemur á sama tíma og Trump hefur hafið opinbera heimsókn sína til Asíu. 

Í flokksblaði stjórnvalda í N-Kóreu, Rodong Sinmun, kemur fram að Bandaríkjamenn þrýsti á um að forsetinn verði kærður fyrir embættisafglöp út af hörðum ummælum sem hann hafi látið falla sem gæti leitt til „kjarnorkustórslyss á meginlandi Bandaríkjanna“, eins og það er orðað. Þá er Trump sagður vera í andlegu ójafnvægi.

Trump kom til Tókýó, höfuðborgar Japans, í dag. Þar sagði hann að enginn einræðisherra ætti að vanmeta Bandaríkin. Ljóst er að þarna beindi forsetinn orðum sínum að Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu. 

Trump mun einnig heimsækja Suður-Kóreu í komandi viku. Hann hefur átt í orðaskaki við Kim, en samskipti leiðtoganna hafa einkennst af fúkyrðum og hótunum. 

Þegar Trump ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í fyrsta sinn hótaði hann að gjöreyða Norður-Kóreu ef ríkið gerði árás á Bandaríkin eða bandamenn þeirra. 

Í Rodong Sinmun er vísað til ummæla Bobs Corkers, sem er formaður utanríkismálanefndar bandarísku öldungadeildarinnar, og annarra bandarískra embættismanna, sem hafa sagt að Trump sé að auka á óstöðugleikann í samskiptum við Norður-Kóreu, algjörlega að óþörfu. 

Blaðið segir að forsetinn hafi ekki áttað sig á þessu og haldi áfram að láta kjánaleg ummæli falla í garð ríkisins. Það segir ennfremur að ef Bandaríkin vanmeta N-Kóreu og halda áfram að haga sér með kæruleysislegum hætti verði N-Kórea að bregðast við að refsa þeim af miskunnarleysi með því að virkja hersveitir landsins. 

Spenna í samskiptum ríkjanna er mikil eftir að norðurkóresk stjórnvöld framkvæmd sjöttu og öflugustu kjarnorkutilraun sína í september. Ríkið hefur einnig gert tilraunir með eldflaugar á undanförnum mánuðum. Yfirvöld í N-Kóreu segja að þau geti nú skotið kjarnorkuflaugum til meginlands Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert