Hótaði fyrrverandi tengdamóður sinni

AFP

Honum hefur verið lýst sem „herskáum trúleysingja“ sem hafi beitt þáverandi eiginkonu sína og barn þeirra ofbeldi, farið ófögrum orðum um Guð og kristna kirkju á samfélagsmiðlum og hótað fyrrverandi tengdamóður sinni. Hann framdi í gær versta fjöldamorð í sögu Texas-ríkis í Bandaríkjunum þegar hann réðist inn í baptistakirkju og myrti 26 manns á aldrinum 18 mánaða til 77 ára.

Devin Patrick Kelley, 26 ára fyrrverandi hermaður í flugher Bandaríkjanna, var klæddur í herklæði þegar hann framdi fjöldamorðið. Svo virðist sem hann hafi í kjölfarið svipt sig lífi. Hann bjó í New Braunfels, litlum bæ um 55 kílómetra frá Sutherland Springs þar sem ódæðið var framið. Einu tengsl Kelleys við kirkjuna var sú að fyrrverandi tengdamóðir hans tilheyrði söfnuðinum en hún hafði fengið hótanir í smáskilaboðum frá honum. Lögreglan segir hins vegar að tengdamóðirin hafi ekki verið í kirkjunni þegar árásin var gerð.

Lýst sem „herskáum trúleysingja“

Kelley lauk herþjónustu 2014 með slæmum vitnisburði. Fram kemur í frétt AFP að líkt og fleiri fjöldamorðingjar hefði hann notað samfélagsmiðla til þess að fá útrás fyrir það sem hann væri ósáttur við í heiminum. Reiði hans beindist gegn skipulögðum trúarbrögðum, kirkjum og þeim sem væru trúaðir. Vitnað er í nokkur fyrrum skólasystkini hans sem hefðu haldið sig fjarri þessum „herskáa trúleysingja“ sem hafi oft verið ógnandi í framkomu.

Eftir að hann yfirgaf flugherinn flutti Kelley til Colorado-ríkis þar sem hann kom fyrir dóm vegna ákæru um misþyrmingu á dýrum en málinu var síðar vísað frá. Hann er sagður hafa gefið rangar upplýsingar þegar hann fyllti út skjöl í tengslum við kaup hans á Ruger-árásarriffli í apríl 2016 í verslun í San Antonio sem hann síðan notaði við fjöldamorðin. Sagðist hann eiga fyrir nokkur vopn sem hann hefði keypt í Texas og Colorado.

Mikil skothríð að nóttu þótti óvenjuleg

Fyrrverandi nágranni hans, Mark Moravitz, sagði Kelley hafa þótt venjulegur í samfélagi þar sem algengt sé að fólk eigi skotvopn. Ekkert hafi bent til þess að hann gæti framið slíkt voðaverk. Það eina óvenjulega hafi verið mikil skothríð mörgum sinnum að nóttu til. Honum hafi þó ekki þótt það neitt athugavert enda væru þeir staddir úti á landi.

Kelley gekk inn í baptistakirkjuna í gær og lét byssukúlum rigna yfir fólkið sem þar var samankomið með þeim afleiðingum að 26 létust og 20 særðust. Sumir alvarlega. Maður í nágrenninu heyrði skorhríðina og kom á staðinn vopnaður eigin skotvopni og hrakti hann á flótta. Kelley fannst skömmu síðar látinn með skotsár sem lögreglan telur að hann hafi veitt sjálfum sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert