Tíu handteknir í sameiginlegum aðgerðum

Sjón sem Frakkar eru farnir að venjast - þungvopnaður lögreglumaður …
Sjón sem Frakkar eru farnir að venjast - þungvopnaður lögreglumaður á vakt í París. AFP

Svissneska og franska lögreglan hefur handtekið tíu manns í sameiginlegum aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum. Fólkið er á aldrinum 18-60 ára og var handtekið víðvegar um Frakkland og í svissneska bænum Menton, skammt frá ítölsku landamærunum. 

Fólkið hafði átt í samskiptum í gegnum Telegram, sem er smáforrit þar sem hægt er að senda dulkóðuð skilaboð og er vinsælt meðal þeirra sem tengist hryðjuverkasamtökum.

Níu þeirra voru handteknir í Frakklandi en samkvæmt frétt BFM sjónvarpsstöðinni er fólkið grunað um að vera undirbúa hryðjuverkaárás.

Fyrir tæpum tveimur árum var gerð árás á nokkrum stöðum …
Fyrir tæpum tveimur árum var gerð árás á nokkrum stöðum í París sem kostaði fjölmarga lífið. AFP

Líkt og fram kom í fréttaskýringu Ágústs Ásgeirssonar í Morgunblaðinu í október þá samþykkti franska þingið  ný róttæk lög gegn hryðjuverkastarfsemi sem auka verulega á heimildir yfirvalda til húsleita, takmarkana á ferðafrelsi fólks og til að loka bænahúsum í síðasta mánuði. Festa nýju lögin í sessi ýmsar sérstakar ráðstafanir til bráðabirgða sem fólust í neyðarlögunum runnu út 1. nóvember. Gripið var til þeirra í framhaldi af tveimur stórtækum hryðjuverkum í París í nóvember 2015 sem kostuðu 130 mannslíf, en neyðarlögin hafa verið framlengd sex sinnum.

„Mest íþyngjandi ákvæði laganna verða endurskoðuð árlega, eftir athugasemdir sem fram komu við lögin í öldungadeild þingsins en þar voru settar spurningar við lögin út frá sjónarmiðum mannréttinda sem þóttu vera skert enn frekar með nýju lögunum.

Í ræðu eftir setningu laganna sagði Emmanuel Macron forseti að sú málamiðlun sem frumvarpið væri og þingið hefði samþykkt myndi gera yfirvöldum kleift að spyrna fótum við hryðjuverkastarfsemi án þess að frá „gildum okkar og grundvallar lífsreglum“ væri horfið. Hvatti hann öryggissveitir landsins til að nýta sér nýfengin völd út í hörgul en ræðuna flutti hann á fundi með liðsmönnum franskra öryggissveita, úr her landsins og lögreglu. Þá hét Macron því að ganga harðar fram í að reka ólöglega innflytjendur úr landi.

Samkvæmt lögunum nýju hafa yfirvöld nú í höndunum heimildir til loka byggingum og bænahúsum þar sem alið hefur verið á róttækni. Einnig er þeim nú heimilt að takmarka verulega ferðafrelsi meintra stuðningsmanna íslamskra vígasveita og yfirheyra fólk og vísa því frá samkomum eða stöðum sem taldir eru berskjaldaðir fyrir árásum.

13 áform brotin á bak aftur í ár

Fjöldi hryðjuverka hefur verið framinn í Frakklandi frá í janúar 2015 og þar hafa að verki verið bæði þekktir íslamskir öfgamenn og meintir. Kostuðu þau 241 mannslíf. Macron sagði í ræðu sinni, að frá síðustu áramótum hefðu 13 áform um hryðjuverk í Frakklandi verið brotin á bak aftur og upprætt áður en illvirkjarnir gátu látið til skarar skríða.

 Hann sagði að njósnir yrðu stórauknar í fangelsum sem verið hafa gróðrarstía trúarofstækis. Einnig yrði efnt til ýmissa ráðstafana til að forða ungu fólki í erfiðum borgarhverfum frá því að sogast inn í og undir áhrif öfgahópa. Sagði hann „algjöran skort á fjárhagslegum og félagslegum hreyfanleika“ íbúa í innflytjendahverfum eina helstu orsök þess að fæla ungt fólk inn í faðm samtaka á borð við Ríki íslams. „Að rótum þessara vandamála verðum við að ráðast,“ sagði Macron.

Fjölmennastir munu franskir þegnar vera í hópum erlendra múslímskra öfgamanna sem gengið hafa til liðs við hernað Ríkis íslams í Sýrlandi. Álitið er að um eitt þúsund Frakkar hafi gengið vopnuðum hópum Súnníta á hönd. Möguleg heimkoma þeirra eftir hrun kalífatsins er eitthvað sem franskar öryggissveitir óttast og búa sig alvarlega undir að þurfa að glíma við.

AFP


Meirihluti vill harkalegri lög

Franskur almenningur hefur lítt sem ekkert látið andhryðjuverkalögin til sín taka og þykir það endurspegla aukna hörku þjóðfélagshópa og beina afleiðingu endurtekinna hryðjuverka undanfarin tæp þrjú ár. Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að 57% Frakka voru hlynnt hertum lögum og það jafnvel þótt 62% þeirra óttuðust að grundvallar frelsi yrði takmarkað.

Fyrir utan að geta nánast lokað meinta stuðningsmenn hryðjuverkamanna inni í hverfum þeirra fær lögreglan heimild til að krefja fólk fyrirvaralaust um skilríki á götum úti, á landamærum, járnbrautarstöðvum, á hafnarsvæðum og á flugvöllum.

Samtök sem láta ýmiss konar réttindamál til sín taka hafa látið í ljós ótta um að slíkar skilríkjaskoðanir muni fyrst og síðast verða notaðar gegn innflytjendum og minnihlutahópum, einkum og sér í lagi múslimum. Samtökin Human Rights Watch gagnrýndu lögin og sögðu að með þeim væru neyðarvöld orðin að „eðlilegu ástandi“. Þá lögðust sérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) gegn setningu nýju laganna í erindi til frönsku stjórnarinnar í september síðastliðnum.

 Sigldi í gegn

Engu að síður sigldi frumvarpið gegnum báðar deildir þingsins með fulltingi mikils þingmeirihluta Lýðræðishreyfingar Macrons, LREM, en einnig studdu það þingmenn hægri flokksins, Lýðveldisflokksins (LR), frumvarpið.

Frakkar hafa á undanförnum árum jafnt og þétt þrengt lög til að takast á við ógnina af hryðjuverkum. Þannig hafa um 15 frumvörp í þá veru orðið að lögum frá árinu 1986. Síðasta hryðjuverkið í Frakklandi var framið í Miðjarðarhafsborginni Marseille 1. október síðastliðinn er Túnisi, sem nýsloppinn var úr fangelsi, stakk tvær ungar konur til bana. Í öðru tilfelli en ótengdu handtók franska lögreglan um liðna helgi 10 einstaklinga sem tengdust meintum áformum hægri öfgamanna sem voru að undirbúa árásir á moskur og stjórnmálamenn, þar á meðal talsmann frönsku ríkisstjórnarinnar.

 Víðar en í Frakklandi

Það er víðar en í Frakklandi sem menn reyna að hamla gegn hryðjuverkum. Evrópusambandið (ESB) birti í liðinni viku áætlanir um endurmótun útitorga og opinna svæða í bæjum og borgum til að torvelda illvirki á borð við þau sem áttu sér stað í Barcelona í ár og í Nice í Frakklandi í fyrra. Verður í fyrstu atrennu varið 100 milljónum evra til þessa verkefnis.

AFP

Þá hafa þýsk stjórnvöld ákveðið auka á eftirlit á landamærum fram í maí 2018, en fyrst var gripið til slíkra ráðstafana 2015 þegar straumur flóttamanna stefndi til Þýskalands. Thomas de Maiziere innanríkisráðherra sagði áframhaldandi hryðjuverkaógn, straum ólöglegra innflytjenda og hriplek ytri landamæri Schengen-svæðisins réttlæta ráðstöfunina. Lögregla mun einkum beina sjónum sínum að landamærunum við Austurríki, helstu aðkomuleið ólöglegra innflytjenda og beinu flugi frá Grikklandi.

 Lifandi eða dauða

Afstaða Frakka til þess að fella eigin þegna í átökum í Sýrlandi hefur ekki verið sögð jafn umbúðalaust og af varnarmálaráðherranum Florence Parly.

 „Það er ásetningur okkar og bandamanna okkar að eyða Ríki íslams. Við viljum ljúka því verki og týni vígamenn lífi í bardögum þá mundi ég segja að það væri fyrir bestu,“ sagði hún í aðdraganda falls borgarinnar Raqa, einu helsta vígi íslamskra öfgamanna í Sýrlandi.

Um 1.000 franskir borgarar eru taldir hafa gengið til liðs við vígasveitirnar. Hafa yfirvöld miklar áhyggjur snúi þeir til baka til Frakklands. Því væri mun minni ógn af þeim fyrir Frakka og evrópsk yfirvöld önnur að þeir féllu frekar enn að verða teknir lifandi, því í síðara tilvikinu nytu þeir verndar og réttinda sem stríðsfangar.

Franska vikuritið Paris Match birti í sumar skýrslu þar sem vitnað er til íraskra embættismanna umhverfis borgina Mosul, skömmu áður en hún var heimt að nýju úr höndum vígasveitanna. Yfirmaður gagnhryðjuverkaþjónustu Íraks, Abdelghani al-Assadi, sagði það sameiginlegan skilning Frakka og Íraka að þeir myndu eyða sveitum jíhadista til að koma í veg fyrir að þeir sneru aftur heim. „Við munum eins mikið og unnt er koma í veg fyrir að franskir aðilar komist lifandi frá Mosul. Takmarkið er að fella þá svo enginn liðsmaður Ríkis íslams komist undan,“ sagði hann,“ segir í fréttaskýringu Ágústs í Morgunblaðinu 26. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert