Trump vill N-Kóreu að samningaborðinu

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur nú ráðamenn Norður-Kóreu að koma að samningaborðinu og að taka upp viðræður um að gefa kjarnavopnatilraunir sínar upp á bátinn.

BBC segir bregða við öðrum tóni í orðum Trump nú en áður, en þeir Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu, hafa til þessa ekki sparað stóru orðin í garð hvors annars. Kvaðst Trump nú „vona að Guð gefi“ að hann þurfi ekki að beita Bandaríkjaher gegn Norður-Kóreu.

Lét Trump þessi orð falla á fréttamannafundi með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, en hann hefur áður hótað því að láta eldi og brennistein rigna yfir Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.

Bandaríkjaforseti er nú á ferð um fimm ríki Asíu og hefur kjarnavopnaáætlun ráðamanna í Norður-Kóreu ítrekað komið til viðræðna.

Ítrekuðu Trump og Moon á fundinum þá von sína að Norður-Kórea hætti við kjarnavopnavæðingu sína. Sagði Trump það vera skynsamlegt fyrir Norður-Kóreu að koma að samningaborðinu og „gera það rétta, ekki bara fyrir Norður-Kóreu, heldur fyrir mannkyn um heim allan“.

Þá hvöttu forsetarnir ráðamenn í Kína og Rússlandi til að þrýsta á stjórnvöld í Norður-Kóreu og greindu um leið frá því að takmörkum á hámarki sprengihleðslna suðurkóreskra loftskeyta hefði verið aflétt. Sagði Trump ennfremur að suðurkóreski herinn munu panta herbúnað frá Bandaríkjunum að andvirði „milljarða dollara“, sem hann sagði draga úr viðskiptahalla milli ríkjanna.

Ekki er ljóst hvort að ríkin hafi þegar undirritað samning þess efnis sín á milli, en Moon sagði þau hafa hafið viðræður um kaup sem myndu auka möguleika Suður-Kóreu á að verja sig.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Moon Jae-In forseti Suður-Kóreu skála hér …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Moon Jae-In forseti Suður-Kóreu skála hér í kampavíni í Seoul. Melania Trump forsetafrú Bandaríjkanna er einnig á myndinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert