Demókratar unnu mikilvæga sigra

Demókratar fóru með sigur af hólmi í ríkisstjórakosningum í tveimur ríkjum Bandaríkjanna í gær. Um er að ræða fyrstu ríkisstjórakosningarnar þar í landi frá því Donald Trump tók við embætti forseta í janúar.

Í Virginíu var það demókratinn Ralph Northam sem fór með sigur af hólmi en hann og andstæðingur hans, Ed Gillespie, tókust á um málefni innflytjenda og stöðu ríkisins. 

Demókratinn Phil Murphy verður næsti ríkisstjóri New Jersey en andstæðingur hans er Kim Guadagno. Þetta þykir geta gefið vísbendingar um hvernig næstu þingkosningar geti farið.

Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, átti í litlum vandræðum með andstæðing sinn Nicole Malliotakis. Samkvæmt New York Times hefur sitjandi borgarstjóri í New York ekki unnið jafn stóran kosningasigur þar í 32 ár. Þegar búið var að telja 90% atkvæða var de Blasio með 65,5% en Malliotakis var með 28,7%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert