Þriðja kynið viðurkennt í Þýskalandi

Æðsti dómstóll Þýskalands hefur gert þinginu að viðurkenna þriðja kynið allt frá fæðingu og með því verður Þýskaland fyrsta ríki Evrópu til þess að bjóðaintersex fólki upp á að skilgreina sig hvorki sem karl eða konu. 

Núgildandi reglur um borgaralega stöðu mismuna intersex fólki segir í niðurstöðu stjórnlagadómstóls Þýskalands. Þar kemur fram að kynvitund sé eitt af grunnréttindum hverrar manneskju. Þýska þingið fær frest til ársloka 2018 til þess að samþykkja nýjar reglur varðandi þriðja kynið. Það er skráningu í fæðingarvottorð. 

Ástæðan fyrir því að stjórnlagadómstóllinn tók málið fyrir var kæraintersex manneskju en samkvæmt núverandi reglum geta þeir sem eru intersex sleppt því að skrá kyn sitt óski þeir þess.

AFP

Álíka algengt og rautt hár

Intersex manneskjan sem fór með málið fyrir dómstóla var skráð kvenkyns en samkvæmt litningagreiningu er hún/hán hvorki kona né karl. 

Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum fæðast 0,05-1,7% barna í heiminum intersex en það er álíka hátt hlutfall og hjá þeim sem eru með rautt hár.

Hefðbundin sýn er sú að kyn mannsins ráðist af því hvort hann/hún beri Y-litning eða ekki. Tveir X-litningar (eða arfgerð XX) leiða til þroskunar kvenkyns fósturs en einstaklingur með einn X- og einn Y-litning verður að öllu jöfnu karlkyns. Þó eru ekki allir karlmenn með einn X- og einn Y-litning, né allar konur með tvo X-litninga, segir á Vísindavef HÍ.

Auk heilkenna sem stafa af breyttum fjölda kynlitninga fæðast stundum börn með eðlilegan fjölda litninga sem bera þó einkenni beggja kynja, jafnvel fullþroska kynkirtla beggja kynja. Það nefnist á fræðimáli ovotestis en var áður oft kallað millikyn.

Kynferði liggur ekki alltaf  ljóst fyrir. Annað slagið kemur fyrir að barn fæðist með svo óeðlileg kynfæri að ómögulegt er að greina hvort það er stúlku- eða sveinbarn. Þá er talað um tvíræð kynfæri (e. ambiguous genitalia) og kynferðistvíræðni (e. sexual ambiguity). Slíkir einstaklingar eru kallaðir millikynjungar (e.intersexuals) og skilgreiningin á þeim er „einstaklingur sem fæðist með kynfæri og/eða síðkomin kyneinkenni á milli beggja kynja“, segir enn fremur á Vísindavefnum.

AFP

Talsmaður innanríkisráðuneytisins, Johannes Dimroth, segir að ríkisstjórn Þýskalands, sé reiðubúin til þess að tryggja að breytingar verði gerðar á löggjöf landsins í samræmi við niðurstöðu stjórnlagadómstólsins.

Intersex er samþykkt í opinberum skráningum nokkurra ríkja. Þar á meðal Ástralíu, Indlandi, Nýja-Sjálandi og Nepal.

AFP

Belgíska fyrirsætan Hanne Gaby Odiele vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar hún greindi frá því opinberlega að hún/hán væri intersex.

Í New York er hægt að skrá börn intersex við fæðingu en Frakkar hafa ekki verið jafn frjálslyndir því í maí hafnaði stjórnlagadómstóll landsins því að manneskja sem er hvorki með typpi né píku fengi að vera skráð intersex í opinberum skjölum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert