Fyrrverandi forseti þingsins kom fyrir rétt

Forcadell kom fyrir Hæstarétt í morgun.
Forcadell kom fyrir Hæstarétt í morgun. AFP

Fyrrverandi forseti héraðsþings Katalóníu, Carme Forcadell, kom fyrir Hæstarétt Spánar í dag vegna aðildar sinnar í baráttunni fyrir aðskilnaði héraðsins frá Spáni, en líkt og fram hefur komið kusu íbúar Katalóníu með sjálfstæði héraðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 1. október síðastliðinn. Stjórnlagadómstóll Spánar dæmdi kosninguna ólöglega en Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti Katalóníu, lýsti engu að síður yfir sjálfstæði þegar stjórnvöld á Spáni höfðu hótað því að svipta héraðið sjálfstjórnarvaldi.

Í kjölfarið fór Puigdemont til Brussel í Belgíu, ásamt nokkrum ráðherrum héraðsþingsins. Evrópsk handtökuskipun var gefin út á hendur honum þegar hann mætti ekki til yfirheyrslu á Spáni vegna málsins.

Líkt og Puigdemont er Forcadell ákærð fyrir uppreisn, uppreisnaráróður og misnotkun á opinberu fé og gæti dómari ákveðið að hafa hana og fleiri úr héraðsstjórninni í haldi á meðan réttað er yfir þeim. Hún var ein af þeim sem mætti á settum tíma í yfirheyrslur í síðustu viku, en réttarhöldunum var þá frestað til dagsins í dag. Ráðherrarnir gætu átt yfir höfði sér 15 til 20 ára dóm.

Lítill hópur mótmælenda hafði safnast saman fyrir utan dómshúsið og hélt á lofti mótmælaspjöldum gegn sjálfstæði Katalóníu. Útspili héraðsþingsins var þar lýst sem algjörlega misheppnuðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert