82 útlendingar handteknir í Tyrklandi

AFP

Tyrkneska lögreglan hefur handtekið 82 útlendinga sem ætluðu sér að fara yfir landamærin til Sýrlands en fólkið er grunað um að tengjast vígasamtökunum Ríki íslams.

Húsleit var gerð á 14 stöðum í Istanbúl í morgun en fólkið hefur allt tengst starfsemi Ríkis íslams á átakasvæðum, segir í frétt Anadolu-ríkisfréttastofunnar.

Í borginni Adana voru síðan 11 meintir liðsmenn Ríkis íslams handteknir en þeir eru allir af sýrlenskum uppruna.

Fyrir nokkrum dögum handtók lögreglan í Ankara 173 manns sem eru grunaðir um tengsl við hryðjuverkasamtök.

Alls hafa 1.500 lögreglumenn tekið þátt í aðgerðunum og hefur verið gefin út handtökuskipun á hendur 245 manneskjum. Um 450 hafa verið handteknir vegna gruns um að tengjast Ríki íslams í Tyrklandi í síðasta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert