Einfaldara að semja við Breta en ESB

Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna.
Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Verði Bretland ekki áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins eftir að landið yfirgefur sambandið greiðir það fyrir nánara viðskiptasambandi við Bandaríkin. Þetta hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir Wilbur Ross, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna.

Ross segir í viðtali við BBC að þegar Bretar yfirgefi Evrópusambandið verði fríverslunarsamningur gerður á milli Bretlands og Bandaríkjanna og að það verði einfaldara en að semja við sambandið. Ekki síst vegna þess að Bretar séu almennt hlynntir fríverslun á meðan Evrópusambandið stundi „öfgakennda verndarhyggju“.

Viðskiptaráðherrann, sem hefur verið í Bretlandi að funda með breskum ráðamönnum, sagðist ekki hafa áhyggjur af Bretum utan Evrópusambandsins nema þeir lentu í viðskiptastríði við sambandið. Það myndi þó líklega bitna verr á Evrópusambandinu.

Spurður hvort það væri betra fyrir viðskiptatengsl Bretlands og Bandaríkjanna, ef Bretar yrðu alfarið fyrir utan innri markað Evrópusambandsins og tollabandalag þess, segir Ross: „Það veitir möguleika á mun nánara sambandi við okkur ef þið eruð fyrir utan þetta.“

Þetta væri ekki síst raunin þar sem vera utan tollabandalags Evrópusambandsins þýddi að Bretar gætu samið um eigin fríverslunarsamninga í stað þess að sambandið semdi fyrir þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert