Hótað lífláti vegna hraðasektar

Kirkjan þar sem Kelley myrti 26 manns.
Kirkjan þar sem Kelley myrti 26 manns. AFP

„Það bjó mikið hatur innra með honum,“ segir Tessa Brennaman, fyrrverandi eiginkona árásarmannsins Devin Kelley sem skaut 26 kirkjugesti til bana í smábæ í Texas 5. nóvember 2017 áður en hann tók eigið líf. Hún lýsir því hvernig hún bjó við stöðugan ótta við hann meðan á ofbeldisfullu sambandi þeirra stóð í viðtali við sjónvarpsstöðina CBS.    

Árið 2013 var Kelley dæmdur til fangelsisvistar fyrir að beita Brennaman grófu líkamlegu ofbeldi. Hann reyndi meðal annars að kyrkja hana og hótaði henni og fjölskyldu hennar lífláti. 

Viðtalið við Brennaman sem er 25 ára er átakanlegt. Þetta er í fyrsta skipti sem hún tjáir sig við fjölmiðla eftir árásina. Hún lýsir því hvernig hann dró upp byssu og beindi að höfði hennar og hótaði að myrða hana þegar hún hlaut hraðasekt. „Hann dró upp byssu úr hulstrinu og beindi henni að gagnauganu og sagði: „Viltu deyja? Viltu deyja?“.“ 

Kelley átti hvorki að geta keypt sér byssu né eiga hana því hann hafði hlotið dóm fyrir ofbeldi. Samt sem áður keypti hann riff­il­inn, sem hann notaði í árás­inni, í versl­un í San Ant­onio í apríl 2016

Yfir 50 konur myrtar í hverjum mánuði 

Samtök sem berjast fyrir auknu byssuöryggi benda á að í 54% af 156 skotárásum á árunum 2009 til 2016 hafi fórnarlömbin verið fyrrverandi elskhugar eða fjölskyldumeðlimir. Fyrrverandi eiginmenn eða kærastar myrða í hverjum mánuði yfir 50 konur í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum Everytown. Ef byssa er til á heimilinu og sambandið er ofbeldisfullt eru fimm sinnum meiri líkur á að konan sé myrt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert