8 ára lætur lífið í spyrnuakstri

Hin átta ára gamla Anita Board við bílinn sem hún …
Hin átta ára gamla Anita Board við bílinn sem hún ók. AFP

Átta ára stúlka lést í Ástralíu eftir að hún lenti í árekstri á bíl sínum í svonefndum spyrnuakstri (e. drag racing) á kappakstursbraut fyrir spyrnukeppni ungmenna.

Anita Board var ein að fara prufuhring á brautinni þegar bíll hennar lenti á steinsteypubúkka á Perth Motorplex-brautinni að því er lögregla greinir frá.

Sjúkraliðar hlúðu að Anitu á vettvangi og fluttu hana svo á sjúkrahús þar sem hún lést degi síðar.

BBC segir Anitu hafa verið að fara hring á brautinni til að reyna að öðlast leyfi til að taka þátt í spyrnukeppni ungmenna.

Hún var nýorðin átta ára, en samkvæmt reglum Australia National Drag Racing Association-spyrnukeppnissambandsins verða keppendur að vera orðnir átta ára til að fá að keppa.

Búið er að banna spyrnukeppni ungmenna á Perth Motorplex-brautinni eftir banaslysið.

Mick Murray, íþrótta- og frístundaráðherra Ástralíu, segir að með því að setja á tímabundið bann við spyrnukeppnum ungmenna verði hægt að rannsaka slysið að fullu. Hann kvaðst þá ekki hafa vitað að átta ára börn mættu keppa í íþróttinni.

„Ég var mjög hissa, en minn skilningur er þó sá að vel hafi verið fylgst með málum þrátt fyrir þetta óheppilega slys,“ sagði Murray.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert