Flestar leikkonur hafa orðið fyrir áreitni

Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn.
Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Wikipedia/ Axel Kuhlmann

Tvær af hverjum þremur leikkonum innan vébanda félags leikara í Danmörku hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi, samkvæmt nýrri könnun sem Politiken gerði meðal leikkvenna í Danmörku.

Alls svöruðu 378 leikkonur spurningum Politiken en það eru 33% kvenna sem eru í félagi leikara í Danmörku.

Af 378 leikkonum sagðist 241 (64%) hafa upplifað einhverja tegund áreitni af hálfu stjórnanda á síðustu tíu árum.

Ein lýsir því hvernig hún hafi vaknað við það að leikstjórinn, sem er 20 árum eldri en hún, var á fullu við að reyna að rífa hana úr fötunum að næturlagi þar sem þau voru að störfum erlendis. Hún hafi brugðist ókvæða við og náð að losa sig og hljóp inn á baðherbergi þar sem hún læsti sig inni.

Hún segir að árásarmaðurinn hafi hunskast út úr herberginu en næstu mánuði hafi hann hefnt sín með því að útiloka hana frá stórum hlutverkum og niðurlægt hana fyrir framan aðra.

„Ég varð að ýta honum frá mér. Síðan þá hefur hann áreitt mig með símtölum og mörgum skilaboðum,“ segir ein leikkvennanna.

Önnur lýsir því þegar hún var á æfingu að lesa texta af blaði sem var á borðinu og hann stóð fyrir aftan hana.

Ein varð fyrir því að mótleikari setti hönd sína undir blússu hennar og káfaði á brjóstum hennar. 

57 prósent þeirra leikkvenna sem svöruðu könnuninni hafa orðið fyrir munnlegri áreitni af hálfu yfirmanns; bæði meiðandi ummælum og óviðeigandi gríni. 

39 prósent þátttakenda hafa orðið fyrir líkamlegri áreitni af hálfu yfirmanns, svo sem káfi og óvelkomnum faðmlögum. Kossar og önnur óvelkomin áreitni, svo sem dónaleg sms og tölvupóstur, eru meðal þess sem leikkonur hafa þurft að þola í Danmörku.

Umfjöllun Politiken í heild 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert