Ráðuneytið rannsakar Clinton

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur beðið saksóknara að rannsaka meint misferli hjá Clinton-stofnuninni og umdeilda sölu á námufyrirtækinu Uranium One til Rússlands á meðan Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var við völd.

Í framhaldinu yrði skorið úr um hvort skipa þurfi sérstakan saksóknara til að rannsaka málin enn frekar. Robert Mueller hefur þegar verið skipaður sérstakur saksóknari vegna rannsóknar á meintum samskiptum á milli aðstoðarmanna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Rússa meðan á kosningaherferð Trumps stóð.

Hillary Clinton á kosningafundi í fyrra.
Hillary Clinton á kosningafundi í fyrra. AFP

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur jafnframt verið beðinn að bera vitni vegna þessara meintu samskipta. Hann var á meðal ráðgjafa Trumps í utanríkismálum á meðan herferðin stóð yfir. Búist er við að demókratar sæki hart að Sessions í yfirheyrslunum.

Hann hefur áður borið vitni eiðsvarinn um að hann hafi ekkert vitað af neinu leynimakki við Rússa.

Bæði Trump og þingmenn Repúblikanaflokksins hafa óskað eftir rannsókn á Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og sölu á námufyrirtækinu til Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert