Sjálfsvígsbylgja meðal lögreglumanna

AFP

Átta franskir lögreglumenn, þar á meðal fyrrverandi lögreglustjóri, hafa framið sjálfsvíg á aðeins viku og vekur þetta þungar áhyggjur meðal ráðamanna um líðan lögreglumanna og stöðu þeirra í Frakklandi.

Alls hafa 45 lögreglumenn framið sjálfsvíg í Frakklandi það sem af er ári en auk þeirra hafa 16 félagar í frönsku herlögreglunni (Gendarmerie nationale française) svipt sig lífi.

Á sunnudag framdi Antoine Boutonnet, æðsti yfirmaður frönsku lögreglunnar í málefnum óeirðaseggja, sjálfsvíg en hann fannst látinn á skrifstofu sinni.

Talið er að Boutonnet hafi notað lögreglubyssu sína til að svipta sig lífi. Boutonnet kom meðal annars að undirbúningi EM í knattspyrnu í fyrra fyrir hönd lögreglunnar en það vakti mikla athygli þegar hann varaði breskar fótboltabullur við því að koma til Frakklands þegar keppnin færi fram. Þeir væru einfaldlega ekki velkomnir til landsins.

Dauði Boutonnets kom mörgum á óvart og var þeim áfall. Þar á meðal forseta franska knattspyrnusambandsins, Frédéric Thiriez. „Hann var ekki bara fagmaður heldur einnig mannvinur. Við urðum vinir,“ segir Thiriez.

Innanríkisráðherra Frakklands, Gérard Collomb, ætlar að ræða við forsvarsmenn samtaka lögreglumanna í vikunni. Hann hefur einnig beðið lögreglustjóra landsins að taka saman hvað sé hægt að gera til að draga úr líkum á sjálfsvígum lögreglumanna.

Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til er að ráða fleiri sálfræðinga til starfa og eins er stefnt að því að ráða fleiri í lögregluskóla landsins. Lögreglumenn hafa fengið úthlutaða læsta skápa á lögreglustöðvum þar sem þeim er gert að skilja skotvopn sín eftir þegar þeir fara heim úr vinnu. Var það gert til þess að draga úr líkum á sjálfsvígum þeirra með skotvopnum þegar heim er komið.

Fyrrverandi innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, hét því á sínum tíma að bæta starfsaðstæður lögreglumanna. Til að mynda með því að bæta jafnvægið milli vinnu og einkalífs. Loforðið gaf hann fyrir tveimur árum þegar 55 lögreglumenn og 30 herlögreglumenn frömdu sjálfsvíg á einu ári.

AFP

David-Olivier Reverdy, sem starfar fyrir stéttarfélag lögreglumanna, Alliance, segir að alvarlegur vandi blasi við innan lögreglunnar. Því þrátt fyrir að ekki sé hægt að rekja sjálfsvíg til einnar ástæðu sé ljóst að mikilvæg atriði séu ekki í lagi innan lögreglunnar. Þetta hafi þau áhrif að einhverjir bugist og fari fram af brúninni. Í einhverjum tilvika sé ljóst að vandamálin séu í einkalífi viðkomandi og ekki tengd lögreglustarfinu.

AFP

Erfiðar starfsaðstæður

Hann bendir á starfsaðstæður, þrýsting frá yfirmönnum og ofbeldið sem lögreglumenn eiga alltaf yfir höfði sér. Má þar nefna hættuna á að verða skotmark hryðjuverkamanna. Í apríl í fyrra var lögreglumaður skotinn til bana á Champs-Elysées-breiðgötunni í París og í júní 2016 voru lögreglumaður og kona hans stungin til bana fyrir framan ungan son sinn.

Eins hafa lögreglumenn orðið skotmörk ofbeldisfullra mótmælaaðgerða og í maí 2016 voru lögreglumenn búnir að fá nóg og mótmæltu lögregluhatri í landinu á götum Parísarborgar.

„Á hverjum degi standa lögreglumenn frammi fyrir mannlegum hörmungum, ofbeldi og því versta sem þú getur fundið í mannskepnunni. Lögreglan getur ekki lengur unað þessum skorti á tillitssemi í sinn garð. Þetta er meðal þess sem veldur því að þeir grípa til þessara örþrifaráða,“ segir í yfirlýsingu samtaka lögreglumanna, Unité-SGP.

Frétt The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert