Tveir aldraðir SS-menn ákærðir

Barnungir fangar í fangabúðum nasista.
Barnungir fangar í fangabúðum nasista. Wikipedia

Þýskir saksóknarar sem rannsaka glæpi frá valdatíma nasista í Þýskalandi greindu frá því í dag að þeir hefðu ákært tvo fyrrverandi liðsmenn í SS-sveitum nasista fyrir aðild að morðum á hundruðum manna í Stutthof-fangabúðunum í norðurhluta Póllands.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að karlmennirnir tveir hafi ekki verið nafngreindir. Einungis hafi komið fram að þeir séu annars vegar 92 ára og hins vegar 93 ára og að þeir hafi tekið þátt í morðum nasista á meðan Pólland var hernumið á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Mennirnir munu hafa verið um tvítugt þegar morðin áttu sér stað.

Þannig var 92 ára gamli maðurinn vörður í fangabúðunum frá því í júní 1944 og fram í maí 1945 og sá 93 ára gamli gegndi sömu stöðu í búðunum frá því í júní 1942 og fram í september 1944. Um 65 þúsund manns týndu lífi í Stutthof-fangabúðunum.

Mennirnir tveir eru meðal annars ákærðir fyrir aðild að fjöldamorðum á yfir eitt hundrað pólskum föngum í gasofnum í júní 1944 og morðum á 77 særðum sovéskum stríðsföngum sama sumar. Enn fremur morðum á hundruðum gyðinga.

Þeir eru einnig ákærðir fyrir að vera meðsekir vegna hræðilegra aðstæðna í fangabúðunum sem kostuðu nokkur hundruð fanga lífið vegna sjúkdóma. Mennirnir hafa neitað því að hafa átt aðild að dauðsföllunum í Stutthof. Málin fara nú fyrir dómstóla.

<br/>

Fram kemur í fréttinni að sjötíu árum eftir réttarhöldin yfir háttsettustu foringjum nasista í borginni Nurnberg séu þýsk stjórnvöld í keppni við tímann að ákæra síðustu glæpamenn nasistastjórnarinnar eftir að hafa ekki sinnt því að ráði áratugum saman.

Mörg málanna fara ekki fyrir dómstóla þar sem hinir ákærðu teljast ekki nógu heilsuhraustir til þess að sæta ákæru. Einungis fjórir einstaklingar hafa farið fyrir dómstóla vegna slíkra mála á undanförnum sjö árum á grundvelli nýrrar aðferðafræði sem gerir ekki kröfu um að sýnt sé fram á að hinir ákærðu hafi komið beint að einstökum morðum á fórnarlömbum nasista. Nóg er að þeir hafi starfað í fangabúðum þar sem slík morð hafi farið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert