Fulltrúadeildin samþykkir skattafrumvarp

Stuðningsmenn frumvarpsins fögnuðu þegar það var samþykkt.
Stuðningsmenn frumvarpsins fögnuðu þegar það var samþykkt. AFP

Þingmenn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykktu í dag umdeilt skattafrumvarp Repúblikanaflokksins sem mun lækka skatta á stór fyrirtæki úr 35 prósent í 20. Skattar á minni fyrirtæki munu einnig lækka. Hvað einstaklinga varðar munu ýmsir skattaafslættir verða felldir niður.

227 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en 205 voru á móti. Í þeim hópi voru allir þingmenn demókrata og 13 repúblikanar, en skömmu áður en atkvæðagreiðslan fór fram ávarpaði Trump þingmenn Repúblikanaflokksins og hvatti þá til að keyra frumvarpið í gegn.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er með þessu einu skrefi nær því að ná fram breytingum sem munu marka ákveðin þáttaskil. Sigurinn er þó ekki í höfn enn þá, því öldungadeild þingsins á enn eftir að greiða atkvæði um frumvarpið. Gera má ráð fyrir að það verði gert undir lok þessa mánaðar.

Nokkrir repúblikanar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna hugsanlegra afleiðinga sem frumvarpið gæti haft í för með sér. Eins og að skattalækkanir geti orðið til þess að skuldir ríkisins aukist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert