Fulltrúi SÞ lést í háskaleik

Empire State.
Empire State. mbl.is/JOHN MOORE

Fulltrúi Ástralíu hjá Sameinuðu þjóðunum, Julian Simpson, lést í gær eftir að hafa sýnt af sér glæfralegt athæfi. Frá þessu greinir BBC og fjölmargir vestrænir fjölmiðlar. Maðurinn, sem var þrítugur, var að sögn að fikra sig eftir syllu á húsþaki sjö hæða háhýsis í New York þegar hann rann til, hrapaði og skall til jarðar.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi verið að bregða á leik með félaga sínum. Leikurinn hafi snúist um að treysta félaga sínum fyrir lífi sínu [e. trust game].

Simpson var fluttur á sjúkrahús eftir fallið þar sem hann var úrskurðaður látinn. Hann hafði verið úti að skemmta sér með konu sinni og vinum. Þau höfðu meðal annars fylgst með því þegar Empire State-byggingin var lýst upp í regnbogalitum til stuðnings atkvæðagreiðslu í heimalandi Simpsons sem sneri að hjónabandi samkynhneigðra.

Lögreglan í New York hefur ekki viljað staðfesta að Simpson hafi látist við leik. Það er að sögn í rannsókn. Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, hefur tjáð sig um slysið og lýst því sem harmleik. „Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans en ég get ekki veitt frekari upplýsingar á þessu stigi,“ er haft eftir honum í Seven Network.

Utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop, hefur sagt við fjölmiðla að Simpson hafi verið iðinn og afar hæfileikaríkur diplómati. Simpson hafði búið í Bandaríkjunum í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert