Söguleg stund á uppboði

„Þetta er sögulegt augnablik, við bíðum aðeins,“ sagði Jussi Pylkkanen, stjórnandi uppboðs hjá Christie's í New York í gærkvöldi. Þá var búið að bjóða 300 milljónir bandaríkjadala í málverk eftir Leonardo da Vinci, verk sem nokkru síðar var slegið á 450,3 milljónir bandaríkjadala, sem svarar til 46,8 milljarða íslenskra króna. Nýtt met hefur verið slegið á listmunauppboði.

Salvator Mundi eftir Leonardo da Vinci.
Salvator Mundi eftir Leonardo da Vinci. AFP


Verkið er talið vera eftir da Vinci og er 500 ára gamalt. Með sölunni í gærkvöldi var slegið met sem sett var árið 2015 hjá sama uppboðshúsi. Þá var málverk Pablos Picassos, Les Femmes d'Alger (Version 0), selt á 179,4 milljónir dala.

Verkið sem var selt í gær, Salvator Mundi, er eitt af fáum verkum (innan við 20 talsins) sem vitað er með nánast fullri vissu að eru eftir da Vinci. Öll önnur verk hans eru í eigu safna eða stofnanasafnara. Ekki hefur verið upplýst hver keypti verkið á uppboðinu í gær.

AFP

Samkvæmt gögnum Christie's er málverkið, sem væntanlega er af Jesú, frá því um 1500. Um er að ræða olíumálverk og tók salan aðeins 18 mínútur en atgangurinn var nánast stjórnlaus og ekki að ástæðulausu sem stjórnandinn stöðvaði það eitt andartak. Andrúmsloftið í salnum var þrungið spennu og tóku ýmsir andköf þegar tilboðin hækkuðu hratt og örugglega á hverri mínútu sem leið. 

Hamarshöggið glumdi við - verkið var slegið á 450 milljónir bandaríkjadala en kaupandinn greiðir 300 þúsund dali í aukagjald fyrir viðskiptin. 

AFP

Seljandinn er rússneskur milljarðamæringur sem höfðaði mál gegn svissneskum listaverkasala í Mónakó árið 2013 vegna verksins. Sakaði hann listmunasalann um að hafa svindlað á sér. 

Dmitrí Rybolovlev, eigandi knattspyrnufélagsins AC Monaco, sakaði Yves Bouvier um að hafa haft af sér hundruð milljóna bandaríkjadala með því að rukka hann aukalega þegar þeir áttu viðskipti saman og stinga mismuninum í eigin vasa. Í málaferlunum var það þetta verk, Salvator Mundi, sem harðast var deilt um.

Bouvier keypti málverkið hjá Sotheby's á 80 milljónir bandaríkjadala árið 2013. Aðeins nokkrum dögum síðar seldi hann Rybolovlev verkið á 127,5 milljónir dala, sem þýðir að hann hagnaðist um 47,5 milljónir dala á viðskiptunum. Bouvier hefur alltaf neitað því að hafa brotið lög.

AFP

Salvator Mundi var sýnt á National Gallery í London árið 2011 eftir að hafa verið rannsóknarefni forvarða árum saman. Verkið var áður talið vera eftirprentun á verki da Vincis þegar það var selt á litlu uppboði í Bandaríkjunum árið 2005.

Árið 1958 var það selt sem eftirprentun á 45 bresk pund, sem svarar til rúmlega sex þúsund króna. Síðan hvarf það af markaði árum saman. 

Christie's sagði fyrir uppboðið að nánast ómögulegt væri að setja verðmiða á málverkið. Verk da Vincis eru svo sjaldgæf og í mörg ár var talið að verkið hefði verið eyðilagt. Það var ekki fyrr en árið 2005 sem það fannst í bandarískri fasteign. 

„Fyrir uppboðssérfræðinga er þetta svipað og gralið helga,“ segir Loic Gouzer, stjórnarmaður í listmunadeild Christie's. „Þetta gerist eiginlega ekki betra en þetta,“ bætir hann við.

Um gralið helga segir svo á Wikipedia: Í kristnum helgisögum drykkjarker eða bikar, sem Jesús Kristur drakk af í síðustu kvöldmáltíðinni. Leitin að gralinu er endurtekið minni í sögunum um Artúr konung og öðrum miðaldaævintýrum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert