Starfsfólk Old Vic sakar Spacey um óviðeigandi hegðun

Kevin Spacey.
Kevin Spacey. AFP

Forsvarsmenn Old Vic-leikhússins í London segjast hafa fengið 20 vitnisburði frá starfsfólki sem sakar bandaríska leikarann Kevin Spacey um óviðeigandi hegðun á meðan hann var listrænn stjórnandi leikhússins í 11 ár, eða frá árinu 2003 til 2014. 

Fólkið segist ekki hafa getað vakið athygli stjórnenda á þessari hegðun leikarans og að Spacey hefði starfað hjá leikhúsinu án þess að sæta viðeigandi ábyrgð. Þetta kemur fram á vef BBC.

Forsvarsmenn leikhússins biðjast afsökunar á því að hafa ekki náð að skapa starfsumhverfi þar sem fólk gat tjáð sig óheft um reynslu sína. Þeir lofa bót og betrun. 

Yfirlýsing leikhússins kemur í kjölfar ásakana á hendur Spacey sem er sakaður um kynferðislega áreitni og að hann hafi hagað sér eins og rándýr. Spacey hefur ekki tjáð sig um ásakanirnar.

Rannsókn Old Vic leiddi í ljós að frægð Spaceys og staða hans hjá leikhúsinu hafi komið í veg fyrir að fólk, sérstaklega yngri starfsmenn og yngri leikarar, hafi getað stigið fram og kallað eftir hjálp. 

Aðeins eitt mál af þeim 20 var komið á framfæri við stjórnendur leikhússins með formlegum eða óformlegum hætti . 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert