Áttunda konan ásakar Bush eldri

George H.W. Bush árið 2009.
George H.W. Bush árið 2009. AFP

Áttunda konan hefur stigið fram með ásakanir á hendur George Bush eldri, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að hann hafi káfað á sér.

Túlkur, sem BBC vildi ekki nafngreina starfs hennar vegna, segir að Bush hafi snert sig á óviðeigandi hátt árið 2004.

Hið meinta atvik átti sér stað á fundi á milli forsetans fyrrverandi og Jose Bono Martinez sem þá var varnarmálaráðherra Spánar.

Túlkurinn hefur ekki tjáð sig áður um atvikið opinberlega.

Bush-feðgarnir á hafnaboltaleik í október.
Bush-feðgarnir á hafnaboltaleik í október. AFP

„Þetta var árið 2004,” sagði konan við BBC. „Spænski herinn hafði skyndilega dregið sig út úr Írak og ég starfaði sem túlkur á Spáni.”

Bush stundaði veiðar á Spáni og var ákveðið að Martinez myndi hitta hann þar ásamt túlkinum. Vonast var til að Bush myndi aðstoða við að bæta samskipti á milli George W. Bush, sonar hans og Bandaríkjaforseta, og spænska ráðherrans.

Atvikið meinta átti sér stað þegar teknar voru ljósmyndir að fundinum loknum. „Þegar ákveðið var að taka ljósmyndirnar krafðist herra Bush þess að ég yrði með,” sagði túlkurinn.

„Ég man að mér fannst það skrítið. Venjulega erum við utan rammans. Hann greip í rassinn á mér. Fyrst hélt ég að þetta hafi verið óvart en svo gerði hann það aftur.”

Hún bætti við að hún hafi sagt börnunum sínum frá því sem gerðist þegar hún kom heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert