Fjórir látnir eftir flugslys

Slysið er talið hafa átt sér stað rétt við Waddesonsetrið.
Slysið er talið hafa átt sér stað rétt við Waddesonsetrið. Af Wikipedia

Fjórir eru látnir eftir að Cessna flugvél og þyrla skullu saman í loftinu yfir Buckinghamskíri á Englandi um hádegisbil í dag. Báðar vélarnar hröpuðu til jarðar í skógelendi í nágrenni Waddeson-setursins. Tveir einstaklingar voru um borð í hvorri vél og létust þeir allir í slysinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Thames Valley. BBC greinir frá.

Mitch Missen, slökkviliðsmaður á frívakt, varð vitni að slysinu þar sem hann stóð út í garðinum sínum. „Ég leit upp og sá vélarnar rekast saman í loftinu, í kjölfarið heyrðist mikill hvellur og brak úr vélunum féll til jarðar,“ sagði Missen í samtali við BBC.

„Ég rauk og sótti bíllyklana mína og þegar ég var kominn í bílinn hringdi ég í neyðarlínuna, sem ég gaf frekari upplýsingar um staðsetninguna. Því miður gat ég ekki staðsett vélarnar nákvæmlega en leiðbeindi viðbragðsaðilum eins vel og ég gat. Þegar þeir voru komnir á staðinn snéri ég aftur heim.“

Vél­arn­ar tengj­ast æf­inga­svæði sem er í ná­grenn­inu, að því er kom fram í frétt Sky í dag. Svæðið nota ýms­ir aðilar til æf­inga í flugi á marg­vís­leg­um loft­för­um, s.s. flug­vél­um, þyrl­um og svif­drek­um. 

Samkvæmt frétt BBC er hafin sameiginleg rannsókn rannsóknarnefndar flugslysa og lögreglu á slysinu og tildrögum þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert