Liðhlaupinn var með óvenjumikið magn sníkjudýra

Pyongyang höfuðborg Norður-Kóreu. Rannsókn suðurkóreskra vísindamanna leiddi í ljós að …
Pyongyang höfuðborg Norður-Kóreu. Rannsókn suðurkóreskra vísindamanna leiddi í ljós að lifrabólga B, lifrabólga C, berklar og sníkjudýrasýkingar voru algengari hjá þeim en íbúum Suður-Kóreu. AFP

Liðhlaupi úr norðurkóreska hernum, sem var skotinn af liðsfélögum sínum er hann flúði yfir landamærin til Suður-Kóreu er með óvenjumikið magn sníkjudýra í innyflum sínum að sögn lækna.

Hermaðurinn flúði til Suður-Kóreu á mánudag, en varð fyrir nokkrum skotum liðsfélaga sinna í landamæragæslunni.

Læknar segja ástand hans vera stöðugt, en að „verulega mikið magn“ orma í líkama hans valdi sýkingum í sárum og geri ástandið verra.

Er ástand hans talið gefa sjaldgæfa innsýn í líf íbúa í Norður-Kóreu.

„Ég hef aldrei á mínum 20 ára ferli sem læknir séð annað eins,“ hefur BBC eftir suðurkóreska lækninum Lee Cook-jong. Lengsti ormurinn sem hann fjarlægði úr innyflum mannsins var 27 sm langur.

„Norður-Kórea er mjög fátækt ríki og eins og önnur fátæk ríki þá býr það við alvarleg heilsufarsvandamál,“ sagði Andrei Lankov við Kookmin-háskólann í Seoul við BBC.

„Norður-Kórea hefur ekki bolmagnið fyrir nútíma heilbrigðiskerfi,“ sagði Lankov. „Læknar þar fá litla kennslu og þurfa að vinna með frumstæðan búnað.“

Suðurkóreskir vísindamenn gerðu árið 2015 heilsufarsrannsókn á norðurkóreskum liðhlaupum sem höfðu lagst inn á sjúkrahús í Cheonan á árabilinu 2006-2014.

Leiddi rannsókn þeirra í ljós að lifrarbólga B, lifrarbólga C, berklar og sníkjudýrasýkingar voru algengari hjá þeim en íbúum Suður-Kóreu.

„Ég veit ekki hvað er að gerast í Norður-Kóreu, en ég fann mörg sníkjudýr þegar ég rannsakaði aðra liðhlaupa,“ hafði vísindatímaritið Korea Biomedical Review eftir Seong Min, prófessor við Dankoo-læknaháskólann.

Lankov, segir þó að miðað við meðaltekjur íbúa sé heilsufar Norður-Kóreubúa  betra en við sé að búast og langlífi meira en íbúa Bangladess og margra Afríkuríkja sem búi við sambærilega fátækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert