Gengur hægt að mynda ríkisstjórn

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Viðræður um stjórnarmyndun í Þýskalandi skiluðu ekki árangri í nótt en gert er ráð fyrir að haldið verði áfram að ræða saman í dag. Þingkosningar fóru fram í landinu 24. september en ekki hefur enn tekist að mynda ríkisstjórn.

Haft er eftir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í frétt AFP að enn sé mikill munur á milli flokkanna sem reynt hafa að ná saman um stjórnarsáttmála en auk flokks hennar, Kristilegra demókrata, er um að ræða Frjálslynda flokkinn og Græningja.

Viðræðurnar eru enn óformlegar en vonir standa til þess að hægt verði að hefja formlegar viðræður eftir nokkra daga. Merkel hafði áður sagt að hún vonaðist til þess að hægt yrði að hefja formlegar viðræður í gær.

Frestur til að mynda ríkisstjórn er útrunninn segir í fréttinni en farið verði fram á framlengingu. Merkel vonist til þess að hægt verði að forðast nýjar þingkosningar. Takist ekki að mynda stjórnina er fátt annað í stöðunni en að boða til kosninga.

Áherslur flokkanna eru afar ólíkar en Græningjar hafa yfirleitt starfað í vinstristjórnum. Niðurstaða kosninganna, sem fól ekki í sér neina afgerandi niðurstöðu varðandi ríkisstjórn til hægri eða vinstri, gerði það hins vegar að verkum að ákveðið var að reyna að mynda þessa óvenjulegu samsteypustjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert